0

Birgir Örn: Þessi bardagi verður algjört stríð!

Þeir Birgir Örn Tómasson og Diego Björn Valencia keppa í MMA í Litháen á laugardaginn. Bardaginn kom tiltölulega snöggt upp en Birgir er tilbúinn í skemmtilegan bardaga.

Birgir Örn (1-0) hefur ekkert barist síðan hann rotaði Anthony O’Connor í sínum fyrsta atvinnubardaga. Sá bardagi fór fram í febrúar í fyrra og kominn tími til að fá hann aftur í búrið.

Strákarnir berjast á King of the Cage bardagakvöldinu í Litháen. Litháen er ekki þekktur áfangastaður hjá bardagafólkinu okkar en hvernig kom þessi bardagi til?

„Það var svo lítið að gerast í þessum málum hjá mér þannig að ég fór að spyrjast betur í kringum mig til að græja mér bardaga. Þá var einn Lithái hér á landi sem hefur tengsl út til Litháens og hann reddaði málunum,“ segir Birgir.

Birgir Örn Tómasson

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Þó Birgir hafi ekki barist í MMA í eitt ár hefur hann ekki setið á auðum höndum. Hann hefur verið að vinna í gólfglímunni og boxinu að undanförnu sem mun vonandi skila sér í búrinu. „Ég hef bætt mig helling bæði í boxinu og gólfglímunni og fékk m.a. loksins bláa beltið í brasilísku jiu-jitsu. Svo keppti ég í hnefaleikum fyrir um mánuði síðan þar sem ég sá og fann að ég hef aldrei verið betri.“

„Hef verið mikið að vinna með Beka [Daniela] boxþjálfara. Alveg frá því að ég sá hvað hann hefur fram að færa hef ég haldið mér eins nálægt honum og ég get, alveg svakalega flottur gaur! Heimsklassa þjálfari og íþróttamaður. Búinn að læra helling af honum nú þegar og hlakka til að sjá hvað verður úr mér undir hans leiðsögn.“

Birgir er gríðarlega spenntur fyrir bardaganum og telur að þetta verði skemmtilegur bardagi fyrir áhorfendur. „Þessi bardagi verður algjört stríð! Ég hef séð brot úr bardaga hjá þessum gæja og hann er mjög flottur, er mjög agressívur og snöggur, kýlir og sparkar mikið, er alltaf að fikra sig að andstæðingnum svipað og ég. Geri ráð fyrir að við förum báðir grimmir áfram og skiptumst á höggum þar til annar liggur. Og það mun gerast fyrripart bardagans og það mun vera hann sem liggur!“

Bardaginn fer fram á laugardaginn og verður reynt að streyma bardaganum í gegnum Facebook.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.