0

Bjarki Eyþórsson: Líður eins og ég hafi gert þetta oft áður

Bjarki Eyþórsson keppir sinn fyrsta MMA bardaga á laugardaginn þegar hann mætir Stu George á Headhunters bardagakvöldinu í Skotlandi. Bjarki er enn einn Bjarkinn sem stígur í búrið.

„Að vera fjórði Bjarkinn er alveg geggjað,“ segir Bjarki og hlær. „Maður veit aldrei hver er að tala við hvern á æfingum og er þetta mjög ruglingslegt allt. En annars er ég hrikalega stoltur að vera fjórði Bjarkinn enda eru hinir þrír allir gæðablóð.“

Þeir Bjarki Þór Pálsson, Bjarki Ómarsson og Bjarki Pétursson eru allir virkir keppendur í MMA í dag og á laugardaginn bætist sá fjórði við.

Hinn tvítugi Bjarki Eyþórsson er mjög spenntur fyrir sinn fyrsta bardaga en hann byrjaði að æfa MMA í Mjölni fyrir tveimur árum síðan. „Ég byrjaði í MMA fyrir aðeins meira en tveimur árum síðan en þá byrjaði ég í einkaþjálfun hjá Magnúsi Inga [Ingvarssyni]. Mér fannst þetta svo fáranlega spennandi svo ég ákvað að henda mér í þetta. Ég æfi mjög mikið og er lítið að vinna. Ég er ekki í skóla þannig að ég er að fórna mjög miklu fyrir að æfa.“

„Ég hafði ekki mikla reynslu úr bardagaíþróttum áður fyrr, ég fór á boxæfingar þegar ég var yngri upp í Æsi með æskuvini mínum en það var mest bara leikur. Ég æfði fótbolta alveg í mörg ár en dró mig úr honum við byrjun menntaskóla.“

Bjarki hefur ekki mikla keppnisreynslu úr öðrum bardagaíþróttum en segist þrátt fyrir það ekki finna fyrir miklu stressi fyrir sinn fyrsta bardaga. „Ég get ekki sagt ég sé stressaður fyrir bardaganum. Mér líður eins og ég hafi gert þetta oft áður og er þetta eitthvað frekar náttúrulegt fyrir mér. Ég er mjög spenntur fyrir bardaganum og ég get ekki beðið eftir tilfinningunni að labba inní búrið. Hlakka til að finna adrenalín rushið en undirbúningurinn og allt í kringum þetta finnst mér mjög spennandi.“

Líkt og vanalega hefur andstæðingur Bjarka breyst og er hann því ekki mikið að hugsa um mótherjann. „Ég veit ekki mikið um andstæðinginn þar sem gæjinn sem ég fer á móti núna er þriðji andstæðingurinn. Ég vildi ekki festa hausinn á ákveðnum andstæðing svo ég skoðaði hann ekki en mér skilst að grunnurinn hans komi úr glímu.“

Bardaginn fer fram í -70 kg léttvigt og verður niðurskurðurinn lítið mál fyrir hann. „Köttið er ekkert mál, ég hef eiginlega verið á vigt í fjórar vikur en mér finnst algjör vitleysa að vera að ströggla með niðurskurðinn í áhugamannabardaga.“

Eins og áður segir fer bardaginn fram á laugardaginn og er Bjarki ekki í nokkrum vafa um hvernig bardaginn fer. „Bardaginn fer minn hag. Ég fer inn í búrið, byrja að pressa, reikna hann út og klára.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.