spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Þór: Hann reyndi ekki einu sinni að biðjast afsökunar

Bjarki Þór: Hann reyndi ekki einu sinni að biðjast afsökunar

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Bjarki Þór Pálsson barðist sinn annan atvinnubardaga í MMA í London á laugardaginn. Bjarki vann eftir að andstæðingurinn hans var dæmdur úr leik eftir ólöglegt hné en við heyrðum í Bjarka fyrr í dag.

Bjarki Þór mætti Englendingnum Alan Proctor á FightStar 8 bardagakvöldinu. Bardaganum var streymt á Facebook síðu Bjarka en nettengingin var ekki eins og best var á kosið og var töluvert um hikst í streyminu. Eftir að streymið hafði verið frosið um tíma hófst það skyndilega aftur í 3. lotu er Proctor var að kýla Bjarka í gólfinu og dómarinn að stöðva bardagann. Fram að því hafði Bjarki haft töluverða yfirburði fyrstu tvær loturnar og var þetta því töluvert áfall fyrir þá sem fylgdust með.

Skömmu síðar kom í ljós að Proctor hafði veitt Bjarka ólöglegt hné í höfuðið og hafði verið dæmdur úr leik. Bjarki vann því bardagann en hvað gerðist nákvæmlega?

„Ég fór í fellu og fór niður á hnén sem ég geri aldrei og hann hnjáar mig beint í hausinn þegar ég var á hnjánum,“ segir Bjarki. Bannað er að veita hné og spörk í höfuð á liggjandi manni eða þegar andstæðingurinn er með annað eða bæði hnén í gólfinu (einnig nóg að snerta gólfið með annarri hendi til að teljast vera liggjandi).

„Fíflið mætti ekki einu sinni á reglufundinn. Hvort þetta hafi bara gerst í hita leiksins eða verið viljandi skiptir mig ekki máli.“

Í fyrstu virtist dómarinn ekki átta sig á að Bjarki hefði fengið hnéð í höfuðið og stoppaði hann ekki bardagann strax. „Dómarinn leyfði honum að fylgja hnésparkinu eftir sem var fáranlegt. Maggi bróðir [Magnús Ingi Ingvarsson sem var í horninu hjá Bjarka] var öskrandi á alla inn í búrinu til að gera þeim grein fyrir því að þetta hafi verið ólöglegt.“

Skilaboðin komust greinilega til skila þar sem Proctor var dæmdur úr leik. „Ég var ringlaður eftir þetta en Maggi sagði mér að ég hafi verið æstur í að halda áfram en feitur sjúkrakall þurfti að leggjast á mig upp við búrið til að halda mér. Ég hefði að sjálfsögðu viljað klára bardagann og fá þessa sigurtilfinningu en svona er þessi bransi. Ég er ánægður með að vera ennþá ósigraður og heill.“

Bjarki ætlar í frekari rannsókn hér heima og fara í skanna eftir atvikið en hann náði ekkert að tala við andstæðinginn eftir bardagann. „Ég for upp á á spítala í rannsókn eftir bardagann en hann reyndi ekki einu sinni að biðjast afsökunar eftir þetta.“

Bjarki er því 2-0 sem atvinnumaður og mun taka sér góða pásu áður en leit að næsta bardaga hefst. „Tveir mánuðir án höfuðhögga er reglan frá John Kavanagh eftir svona. Ég spyr hann hvenær ég megi keppa aftur. Mig langar að keppa um leið og ég er orðinn góður. Það eru fullt af hlutum sem ég tek úr þessu sem ég þarf að laga og mun gera það. 2017 verður mitt ár, Thor train er bara í smá viðhaldi áður en hún fer aftur af stað 2017,“ segir Bjarki og hlær.

Bjarki er feykilega þakklátur fyrir stuðninginn sem hann fékk en 15 Íslendingar mættu til London til að styðja við bakið á honum. „Mig langar að þakka öllum fyrir stuðninginn. Ég fann svo sannarlega fyrir honum og þakka þeim sem komu út að horfa. Að lokum langar mig að þakka styrktaraðilum mínum Drunk Rabbit, Kraftafl, Gló, USN Iceland, Hairbond, Macland, Wow Air og Egils Kristal. Án þeirra væri þetta ekki hægt.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular