Bjartur Guðlaugsson vann bardaga sinn í Færeyjum um síðustu helgi. Bjartur var sáttur með bardagann og horfði á bardagann með andstæðingnum sínum á barnum eftir bardagann.
Bjartur sigraði Danann Mikkel Thomsen eftir dómaraákvörðun í fjörugum bardaga og er Bjartur núna 2-2 sem áhugamaður í MMA. Bardaginn var nokkuð harður en Bjartur segist vera óvenju heill eftir bardagann og í toppstandi fyrir utan smá mar á olnbogum og bólgu á nefinu.
Bjartur hafði betur í „clinchinu“ í bardaganum þar sem hann náði nokkrum fellum. Var það planið fyrirfram?
„Nei planið var ekki endilega að berjast mikið í clinchinu. Ég ætlaði að nota lengdina og reyna að halda pressu á honum standandi. Þegar við vorum hins vegar komnir í clinchið þá fannst mér ég hafa yfirhöndina, vera tæknilegri og ná að stjórna honum svo ég ákvað að ef hann vildi berjast við mig í clinchinu þá ætlaði eg að sýna að ég væri betri þar. Við æfum clinchið mikið í keppnisliðinu og það er svæði sem eg er mjög öruggur á,“ segir Bjartur.
Daninn byrjaði vel og náði fellu í 1. lotu en eftir það tók Bjartur yfir. Thomsen virtist vera orðinn vel þreyttur í 3. lotu á meðan Bjartur hélt áfram að sækja.
„Þolið mitt er líklega einn af mínum helstu styrkleikum. Hann byrjaði rosa hratt í fyrstu lotu en ég fann það strax í byrjun annarrar lotu að hann var orðinn þreyttur og ég gat farið að taka yfir bardagann. Hann viðurkenndi líka fyrir mér eftir bardagann að hann hafi verið orðinn dauðþreyttur seinni hluta bardagans.“
Fyrstu þrír MMA bardagar Bjarts fóru fram á Evrópumótinu – tveir bardagar árið 2015 og einn í fyrra. Það var því örlítið öðruvísi reynsla fyrir Bjart að keppa á venjulegu bardagakvöldi þar sem vigtunin fór fram daginn fyrir bardagann og aðeins einn bardagi í boði.
„Þessi bardagi var að mörgu leyti öðruvísi en fyrri bardagar mínir. Vigtunin var daginn fyrir svo maður var ferskari á keppnisdag. Það voru mun fleiri áhorfendur sem fögnuðu og lifðu sig inn í bardagana og þetta var einnig að kvöldi til. Þetta var í rauninni meira eins og maður ímyndar sér að flest MMA show séu. Myndi segja að þetta hefði almennt verið skemmtilegri upplifun en á fyrri bardögum.“
Það er óhætt að segja að vel hafi farið á milli Bjarts og andstæðingsins, bæði fyrir og eftir bardagann. Þeir áttu góða stund í saununni fyrir bardagann og eftir bardagann fengu þeir sér bjór á meðan þeir horfðu á bardagann.
„Ég talaði við hann bæði fyrir og eftir bardagann. Við vorum báðir að cutta í saununni á sama tíma fyrir bardagann. Ég þakkaði honum fyrir að taka bardagann með stuttum fyrirvara og hann sagði að hans væri ánægjan. Við samræmdust svo um það að fá okkur bjór eftir bardagann. Þrátt fyrir hve vinalegur hann var í cuttinu var hann mjög intense í faceoffinu svo maður vissi að hann ætlaði ekki að gefa neitt eftir.“
„Eftir bardagann fengum við okkur svo bjór og horfðum á upptökuna af bardaganum í símanum mínum. Hann sagði mér að eftir síðasta bardaga sem hann tapaði hafi hann verið reiður og ósáttur þar sem honum fannst hann hefði getað gert meira en núna væri hann sáttur þar sem hann hefði gefið allt sem hann átti en ég hefði einfaldlega verið betri. Inn í búrinu geri ég allt sem ég get til að tortíma andstæðinginum en fyrir utan það reyni ég að vera kurteis og vinalegur,“ segir Bjartur að lokum.
Bardagann má sjá hér að neðan en þess má geta að Bjartur er kominn með opinbera Facebook síðu þar sem hægt er að fylgjast með honum og hans æfingum.