Bjartur Guðlaugsson tapaði bardaga sínum á Headhunters bardagakvöldinu í Skotlandi í kvöld. Bjartur var síðastur af Íslendingunum til að keppa.
Bardaginn var næstsíðasti bardagi kvöldsins á Headhunters kvöldinu í Edinborg. Bjartur mætti Skotanum Hayden Murray í 66 kg fjaðurvigt.
Fyrsta lotan var nokkuð jöfn þar sem Bjartur byrjaði á að stjórna Murray í „clinchinu“. Murray tókst hins vegar að snúa stöðunni við og stjórnaði Bjarti út lotuna.
Í annarri lotu var mikið af því sama en í þetta sinn náði Murray fellu og var ofan á í góðri stöðu (side control) um tíma.
Bjartur var svo aftur tekinn niður í 3. lotu en Murray tókst að stjórna Bjarti upp við búrið stóran hluta bardagans. Bjartur reyndi að fara í „guillotine“ hengingu en Murray varðist öllu því sem Bjartur hafði upp á að bjóða.
Murray sigraði því eftir einróma dómaraákvörðun og var þetta flott frammistaða hjá honum. Bjartur er núna 2-3 á áhugamannaferlinum.
Bjartur var síðastur til að keppa af Mjölnisstrákunum í kvöld og var þetta hreint út sagt frábært kvöld hjá strákunum – þrír sigrar og eitt tap. Hér að neðan má sjá bardaga Bjarts.