spot_img
Friday, October 4, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentBrian Ortega snýr aftur eftir tveggja ára fjarveru

Brian Ortega snýr aftur eftir tveggja ára fjarveru

Brian Ortega var heitasta nafnið í MMA heiminum þegar hann fékk titilbardaga í fjaðurvigtinni. Einhliða tap og erfið meiðsli hafa haldið honum frá búrinu í næstum tvö ár.

Brian Ortega byrjaði afar vel í UFC. Hann vann alla sína bardaga í UFC og kláraði þá ýmist með rothöggi eða uppgjafartaki. Bardagar hans voru mjög skemmtilegir og eftir svakalegt rothögg gegn Frankie Edgar fékk hann verðskuldaðan titilbardaga.

Þann 8. desember 2018 fór Ortega í fjórar harðar lotur gegn Max Holloway. Þar var Holloway upp á sitt allra besta og lenti á þeim tíma metfjölda högga. Hornið stöðvaði bardagann áður en 5. lota byrjaði enda var Ortega þreyttur og marinn. Verðskuldaður sigur hjá Holloway en síðan þá hefur Ortega ekki barist.

Á meðan Ortega hefur verið á hliðarlínunni hefur margt gerst. Max Holloway hefur tapað þremur af fjórum síðustu bardögum sínum en sigurinn gegn Ortega var hans 13. í röð, Khamzat var bara 3-0 í MMA og Israel Adesanya var nýlega búinn að klára sinn fjórða bardaga í UFC.

Ortega hefur síðan þá farið nokkrum sinnum undir hnífinn. Ortega fór í aðgerð á sitt hvorri höndinni, aðgerð á nefi og fæti áður en bardaginn við Chan Sung Jung var staðfestur í fyrra. Ortega átti að mæta Jung í desember 2019 en þurfti að draga sig úr bardaganum eftir slit á krossbandi. Sem betur fer var krossbandið ekki alveg slitið og fór hann því ekki í aðgerð.

Ortega er loksins orðinn heill heilsu og berst því á laugardaginn í fyrsta sinn í 679 daga. Fjaðurvigtin er töluvert breytt síðan hann barðist síðast og nú er Alexander Volkanovski meistari.

Dana White, forseti UFC, hefur gefið það út að sigurvegarinn á laugardaginn fái næsta titilbardaga. Chan Sung Jung, eða The Korean Zombie eins og hann er oftast kallaður, á eflaust meira skilið að fá titilbardaga en sannfærandi sigur hjá Brian Ortega væri eitthvað sem aðdáendur myndu ekki hata.

Bardagi Ortega og Jung verður aðalbardaginn á UFC bardagakvöldinu á laugardaginn.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular