Bardagi á milli Cain Velasquez og Fabricio Werdum hefur verið staðfestur á UFC 207. Þetta er í annað sinn sem kapparnir mætast en í þetta sinn verður ekkert belti í húfi.
Fabricio Werdum kláraði Cain Velasquez með „guillotine“ hengingu í 3. lotu er þeir mættust í Mexíkóborg í fyrra. Sá bardagi var upp á þungavigtartitilinn en þessi bardagi verður afar mikilvægur upp á titilbaráttuna í þungavigtinni.
Eftir tapið gegn Werdum kom Cain Velasquez sterkur til baka og rotaði Travis Browne í 1. lotu á UFC 200 í sumar. Tveimur mánuðum áður hafði Werdum tapað beltinu sínu til Stipe Miocic. Werdum kom svo sjálfur til baka með sigri á fyrrnefndum Travis Browne í haust.
Cain Velasquez hefði að öllum líkindum fengið næsta titilbardaga en Stipe Miocic vildi lengri pásu eftir sigur sinn á Alistair Overeem í haust. Velasquez vildi ekki bíða eftir titilbardaga og því munu þeir Werdum og Velasquez berjast um hvor fær næsta titilbardaga í þungavigtinni.
UFC 207 fer fram þann 30. desember í Las Vegas en Ronda Rousey mætir Amöndu Nunes í aðalbardaga kvöldsins. Nýjustu orðrómar herma að Dominick Cruz muni verja beltið sitt gegn Cody Garbrandt sama kvöld en sá bardagi hefur ekki enn verið staðfestur af UFC.