0

Cain Velasquez-Fabricio Werdum 2 staðfestur á UFC 207 – Cruz líka?

cain werdumBardagi á milli Cain Velasquez og Fabricio Werdum hefur verið staðfestur á UFC 207. Þetta er í annað sinn sem kapparnir mætast en í þetta sinn verður ekkert belti í húfi.

Fabricio Werdum kláraði Cain Velasquez með „guillotine“ hengingu í 3. lotu er þeir mættust í Mexíkóborg í fyrra. Sá bardagi var upp á þungavigtartitilinn en þessi bardagi verður afar mikilvægur upp á titilbaráttuna í þungavigtinni.

Eftir tapið gegn Werdum kom Cain Velasquez sterkur til baka og rotaði Travis Browne í 1. lotu á UFC 200 í sumar. Tveimur mánuðum áður hafði Werdum tapað beltinu sínu til Stipe Miocic. Werdum kom svo sjálfur til baka með sigri á fyrrnefndum Travis Browne í haust.

Cain Velasquez hefði að öllum líkindum fengið næsta titilbardaga en Stipe Miocic vildi lengri pásu eftir sigur sinn á Alistair Overeem í haust. Velasquez vildi ekki bíða eftir titilbardaga og því munu þeir Werdum og Velasquez berjast um hvor fær næsta titilbardaga í þungavigtinni.

UFC 207 fer fram þann 30. desember í Las Vegas en Ronda Rousey mætir Amöndu Nunes í aðalbardaga kvöldsins. Nýjustu orðrómar herma að Dominick Cruz muni verja beltið sitt gegn Cody Garbrandt sama kvöld en sá bardagi hefur ekki enn verið staðfestur af UFC.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.