Conor McGregor heldur því fram að hann hafi átt að berjast á UFC 224 síðasta maí. Eitthvað hafi þó komið upp sem varð til þess að ekkert varð úr bardaganum.
Þetta sagði Conor McGregor á Instagram fyrr í kvöld. Conor var í 4. sæti á lista Forbes yfir tekjuhæstu íþróttamennina undanfarna 12 mánuði en í Instagram póstinum heldur hann því fram að hann hefði verið ofar en Lionel Messi og Cristiano Ronaldo (sem voru í 2. og 3. sæti) ef bardaginn á UFC 224 hefði farið fram.
UFC 224 fór fram í Ríó þann 12. maí. Samkvæmt Ariel Helwani átti Conor að mæta Rafael dos Anjos um bráðabirgðartitilinn í veltivigt áður en eitthvað hafi komið upp á. Telja má líkur á því að ef þetta sé satt hjá Conor hafi rútuárásin hans í apríl komið í veg fyrir bardagann gegn dos Anjos í maí. Þeir Conor og dos Anjos áttu einmitt að mætast um léttvigtartitilinn á UFC 196 áður en dos Anjos meiddist. Nate Diaz kom í hans stað og endaði á að sigra Conor.
Taka skal þessu með ákveðnum fyrirvara en rútuárásin fór fram þann 5. apríl. Tveimur vikum fyrir það höfðu nokkrir miðlar greint frá því að bardagi á milli dos Anjos og Covington væri í vinnslu en hann var svo endanlega staðfestur á blaðamannafundi föstudaginn 6. apríl.
Rafael dos Anjos mun þó berjast um bráðabirgðartitil nú um helgina gegn Covington í næstsíðasta bardaga kvöldsins á UFC 225.