UFC hefur boðið Conor McGregor og Dustin Poirier bardaga þann 23. janúar. Conor vill fá bardagann fyrr en Dana White segir að það sé ekki í boði.
Conor McGregor sagði á dögunum að hann vilji berjast við Dustin Poirier. Conor vill mæta Poirier og segist hafa samþykkt boð UFC.
Dana White, forseti UFC, sagði síðan í dag að bardagasamtökin hefðu boðið Conor að mæta Dustin Poirier þann 23. janúar. Conor vill bardagann á UFC 255 þann 21. nóvember eða á UFC 256 þann 12. desember. Conor vill berjast á þessu ári en Dana vill ekki breyta dagskrá UFC fyrir Conor.
„Við buðum honum bardaga og hann fékk ákveðna dagsetningu. Við erum búin að bóka allar helgar út árið með titilbardaga á stóru kvöldunum. Hann vill berjast við Dustin Poirier þannig að við þurftum að finna dagsetningu fyrir okkur og ESPN. Honum hefur verið boðið að mæta Dustin Poirier þann 23. janúar. Það er annað hvort já eða nei hjá Conor, ekkert annað í boði,“ sagði Dana White við ESPN.
Á UFC 255 verða tveir titilbardagar. Deiveson Figueiredo mætir Alex Perez um fluguvigtartitilinn og Valentina Shevchenko mætir Jennifer Maia um fluguvigtartitil kvenna á kvöldinu. Á UFC 256 eru einnig tveir titilbardagar; Amanda Nunes mætir Megan Anderson og Petr Yan mætir Aljamain Sterling.
UFC ætlar ekki að færa titilbardaga til að koma til móts við óskir Conor. „Þetta virkar ekki þannig. Við erum búnir að skipuleggja bardagakvöldin okkar út árið. Hann var hættur. Við höfum mætt mörgum áskorunum á þessu ári með heimsfaraldrinum. Við látum þetta ganga og við höfum dagskrána tilbúna. Bardagamenn hafa skuldbundið sig og byrjað að æfa fyrir þessa bardaga. Conor vill gefa berjast við Dustin og við buðum honum bardagann. Það verður 23. janúar.“
Það verður síðan að koma í ljós hvort Conor samþykki boð UFC eða ekki.