Dana White, forseti UFC, segist hafa gefist upp á að setja þá Tony Ferguson og Khabib Nurmagomedov saman í búrið. Bardagi þeirra féll niður í fjórða sinn í gær.
Þeir Tony Ferguson og Khabib eru tveir af bestu léttvigtarmönnum heims. Kapparnir áttu að mætast á UFC 223 á laugardaginn en í Ferguson meiddist í síðustu viku og getur ekki barist.
Á rúmum tveimur árum hefur UFC fjórum sinnum reynt að fá þá til að berjast en alltaf hefur eitthvað komið upp á. Núna hefur Dana White gefist upp á að láta þá berjast og ætlar ekki að bóka bardagann í fimmta sinn.
„Nei andskotinn hafi það! Ég mun aldrei setja þennan bardaga saman aftur. Aldrei!“ sagði Dana við ESPN í gær.
Þeir Max Holloway og Khabib Nurmagomedov verða í aðalbardaganum á laugardaginn en barist verður um léttvigtartitilinn.