Friday, April 19, 2024
HomeErlentDustin Poirier: Var stressaður fyrir bardagann

Dustin Poirier: Var stressaður fyrir bardagann

Dustin Poirier sigraði Conor McGregor á UFC 257 í nótt. Poirier var gríðarlega ánægður með frammistöðuna en vill ekki sjá Chandler í titilbardaga.

Dustin Poirier kláraði Conor með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Poirier sparkaði ítrekað í kálfann á Conor og kom inn með góða leikáætlun. Conor rotaði Poirier í fyrri bardaga þeirra árið 2014 en í þetta sinn var það Poirier sem sigraði eftir rothögg.

„Ég var svo stressaður fyrir bardagann, á leiðinni í búrið og í klefanum. Mér fannst ég vera flatur en um leið og ég var kominn undir skæru ljósin í búrinu lifnaði ég við. Mér leið frábærlega. Ég naut augnabliksins sem ég gerði ekki þegar við mættumst fyrst. Þá var ég ekki á staðnum en núna naut ég þess að vera þarna,“ sagði Dustin eftir bardagann.

„Þegar ég var kominn í búrið og sá Conor þarna fannst mér eins og ég gæti unnið hvern sem er í heiminum. Það kom mér á óvart hve auðvelt var að taka hann niður. En hann náði mér með góðri vinstri snemma, hann er svo hraður og höggþungur. Hann náði mér nokkrum sinnum en mér fannst ég vera að finna tímasetninguna hans.“

„Planið var að boxa ekki við hann. Planið var að boxa og sparka og taka hann niður. Gera þetta að MMA bardaga. Mike Brown [þjálfari Poirier] var alltaf að segja mér að sparka í Conor og það virkaði. Hann var snemma komin í vandræði. Ég var að hitta í vöðvann á sköflungnum og þetta er svo lítill vöðvi, þú getur ekki tekið mörg spörk þar. Ég vissi eftir 2. sparkið að þetta var að meiða hann.“

Michael Chandler átti frábæra frammistöðu þegar hann kláraði Dan Hooker í 1. lotu. Khabib er hefur tilkynnt að hann sé hættur í MMA og vill Chandler fá titilbardaga um lausan titilinn. Poirier telur að Chandler eigi ekki skilið að fá titilbardaga.

„Ég er ekki að fara að berjast við Michael Chandler. Þeir geta gert það sem þeir vilja við flokkinn, mér er sama. Khabib segist ekki vilja berjast aftur, þá er ég meistarinn. Ég ætla ekki að berjast við einhvern nýliða í UFC eins og Chandler, með fullri virðingu fyrir honum. Mér finnst hann þurfa að gera meira heldur en að vinna gæja sem ég er búinn að vinna.“

Dustin er spenntur fyrir að mæta Charles Oliviera en Oliveira sigraði Tony Ferguson í desember og hefur unnið átta bardaga í röð. „Ég hef fylgst með honum í áratug í UFC. Hann hefur barist við marga af þeim bestu. Hann hefur tapað en komið til baka og sýnt hvað þrautsegja er. Oliveira hefur aldrei fengið titilbardaga. Gaethje fékk tækifæri og tapaði eins og ég. Oliveira á skilið að fá titilbardaga.“

Það mun koma í ljós á næstu vikum hvað UFC ætlar að gera við beltið í léttvigtinni en ljóst er að margir frábærir bardagar eru í boði.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular