Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaDustin Poirier vill mæta Conor McGregor á UFC 178

Dustin Poirier vill mæta Conor McGregor á UFC 178

UFC On Fuel TV: Korean Zombie v Poirier - Weigh InBandaríski fjaðurvigtarmaðurinn Dustin Poirier hefur talað mikið á Twitter um að hann vilji mæta Íranum Conor McGregor á UFC 178 í Las Vegas, 27. september næstkomandi. Poirier segir að McGregor hafi vanvirt fjaðurvigtardeildina og að hann vilji lækka rostann í McGregor.

Poirier var gestur í þættinum The MMA Hour á mánudag og útskýrði hvers vegna hann er ekki sáttur við alla athyglina sem McGregor fær. „Ég hef verið ósáttur við hann alveg frá byrjun,” sagði Poirier. „Ég hef verið í þessari deild frá því að WEC sameinaðist UFC. Ég hef skilað mínu og verið þögull og unnið af hörku, daginn út og inn, unnið þá bardaga sem ég þurfti að vinna og verið í nokkrum erfiðum bardögum. Mér finnst að ég þurfi að vera þarna uppi. Ég þarf að vera þar sem fólk er að tala um mig.”

McGregor hefur talað illa um alla bardagamennina á topp tíu listanum í fjaðurvigt UFC undanfarna mánuði, þar á meðal Poirier, sem hann kallaði „baunahaus (e. peahead).” Poirier er í 6. sæti á styrkleikalista UFC.

Poirier er alls ekki sáttur við tal um að McGregor eigi eftir að taka titilinn. „Nafn McGregor ætti ekki að vera notað í sömu setningu og orðið fjaðurvigtartitillinn,” sagði Poirier. „Það ætti aldrei að koma út úr nokkrum manni. Ég trúi ekki hvernig talað er um hann.”

Poirier finnst hann eiga skilið að berjast við toppmenn eins og Frankie Edgar, Chad Mendes og Cub Swanson en segist ekki hafa fengið bardaga við þessa menn, þrátt fyir að hafa beðið um þá. Hann vill því byrja á McGregor, sem hann segir að sé samt ekki einn af tíu bestu mönnunum í fjaðurvigt. „Nei, ekki einu sinni topp tíu. Ég verð fyrsti alvöru bardaginn hans.”

McGregor sigraði Diego Brandao í fyrstu lotu síðasta laugardag og virtist ekki hafa meiðst neitt í bardaganum, svo það er hugsanlegt að hann geti verið tilbúinn fyrir næsta bardaga strax í lok september. Poirier barðist síðast 16. apríl, þegar hann sigraði Akira Corassani með tæknilegu rothöggi í besta bardaga kvöldsins.

UFC 178 verður þann 27. september en þar mun Jon Jones verja titil sinn gegn Alexander Gustafsson. Dominick Cruz snýr aftur eftir langþráð meiðsli og mætir Takeya Mizugaki og þá eigast við þeir Tim Kennedy og Yoel Romero á þessu kvöldi. Það gæti svo farið að bardaginn verði á öðru bardagakvöldi en á UFC 178.

Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular