spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaEddie Alvarez og Bellator

Eddie Alvarez og Bellator

Eddie_Alvarez

Eddie Alvarez og Bellator hafa átt í útistöðum undanfarið ár en þrátt fyrir að Alvarez hafi barist í Bellator um helgina er deilunum langt í frá að vera lokið.

Fyrir um ári síðan ákvað Eddie Alvarez að endurnýja ekki samning sinn við Bellator. Hann hafði þá nýverið tapað titilinum sínum til Michael Chandler í einum besta bardaga ársins. Alvarez virtist þá vera laus allra mála hjá Bellator og voru margir spenntir fyrir því að sjá hann í UFC gegn stóru strákunum þar. UFC bauð honum virkilega góðan samning sem Alvarez samþykkti og leit allt út fyrir að Alvarez fengi að fara í UFC.

Svo var nú aldeilis ekki. Bellator áttu nefnilega svo kallaðan jöfnunarrétt (e. matching rights) á öll samningstilboð sem Alvarez var boðið. Þ.e. ef UFC eða önnur samtök myndu bjóða Alvarez samning þá gæti Bellator boðið honum það nákvæmlega það sama og Alvarez þyrfti að samþykkja samning Bellator. Því gat Bellator boðið honum nákvæmlega sama samning nema þeir skiptu út orðunum UFC og Zuffa yfir í Bellator og Viacom (eigendur Bellator) þannig að samningurinn var sá nákvæmlega sami. Þar sem þessi jöfnunarréttur var til staðar þurfti Alvarez að skrifa undir nýjan samning við Bellator. Alvarez neitaði að skrifa undir og því fór málið fyrir dómstóla.

Í samningnum sem UFC bauð Alvarez átti hann að fá 70.000 dollara fyrir að berjast og svo aðra 70.000 fyrir að sigra auk þess að fá hlut af “pay per view” tekjum UFC. Bellator bauð honum sama samning, nema að Bellator hefur aldrei í fimm ára sögu sinni verið með “pay per view” bardagakvöld. Þrátt fyrir að Bellator hafi alltaf verið ókeypis á hinum ýmsu sjónvarpsstöðvum komust dómstólarnir að þeirri niðurstöðu að samningurinn hafi verið jafngildur og því þyrfti Alvarez að berjast fyrir Bellator. Alvarez hefði getað haldið áfram með dómsmálið en hann var búinn að bíða of lengi eftir bardaga og ákvað því að halda áfram að berjast fyrir Bellator. Bellator voru tilbúnir til að halda málinu lengi í dómstólum bara til að koma í veg fyrir að Alvarez fengi að berjast annars staðar en í Bellator. Sú staðreynd gefur upp ákveðna mynd af Bellator sem er ekkert alltof heillandi. Þar með hefði Alvarez sóað bestu árum ferils síns í bið en það vildi hann ekki gera.

Því börðust Eddie Alvarez og Michael Chandler aftur um nýliðna helgi í skemmtilegum bardaga þar sem Alvarez sigraði eftir dómaraákvörðun. Bjorn Rebney, forseti Bellator, gaf það út að Chandler og Alvarez myndu mætast í þriðja og síðasta sinn á næsta ári og yrði sá bardagi sýndur á “pay per view”.

Heimildir herma að Alvarez megi fara annað hvernig sem þriðji bardaginn fari. Talið er að Alvarez hafi skrifað undir tveggja bardaga samning sem myndi þá renna út þegar þeir Alvarez og Chandler mætast í þriðja sinn.

Ef Alvarez myndi sigra þriðja bardagann, og vera þar með meistarinn í léttvigt í Bellator, fengi hann þá allt í einu að fara til UFC þegjandi og hljóðalaust? Miðað við hvernig Viacom og Bellator höguðu sér síðast eru ekki miklar líkur á því.

Eins og áður sagði átti Eddie Alvarez að fá hluta af “pay per view” tekjunum sem Bellator myndi afla með Alvarez í aðal bardaga. Bellator hefur ekki ennþá hýst sitt fyrsta “pay per view” og alls óvíst hversu marga kaupendur það myndi fá. UFC er að fá að minnsta kosti 300.000 kaup á hvert “pay per view” og nánast ógjörningur fyrir Bellator (sem er talsvert minna nafn en UFC) að ná því marki. Það væri í raun sigur fyrir Bellator ef þeir myndu ná 100.000 “pay per view” sölum. Það er nokkuð ljóst að Eddie Alvarez var illa svikin af dómstólum sem töldu að Bellator hefði uppfyllt þetta samningsákvæði. Alvarez hefði fengið titilbardaga strax í UFC og hluta af “pay per view” tekjunum þar en er þess í stað enn í Bellator sem hefur aldrei hýst “pay per view”.

Þessi framkoma Bellator og Viacom í garð Alvarez er illa séð af bardagamönnum og hefur alvarlega svert vörumerki þeirra. Bardagamenn eru farnir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifa undir samning við Bellator þar sem samningarnir þar eru afar vafasamir og er Eddie Alvarez ekki eina dæmið. Það má færa rök fyrir því að Alvarez hefði kannski ekki átt að skrifa undir samning ef hann var ekki sáttur með þetta samningsákvæði en það er erfitt að setja fram kröfur gegn stórum fyrirtækjum eins og Bellator og UFC þegar um takmörkuð tækifæri er að fá í MMA heiminum.

Þessu máli er langt í frá að vera lokið og væri nánast hægt að skrifa heila bók um málið.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular