0

Er Joseph Duffy tilbúinn í þá bestu?

joe duffyJoseph Duffy mætir Dustin Poirier í aðalbardaganum á UFC Fight Night 76 í Dublin á laugardaginn. Írinn Duffy er síðasti maðurinn til að sigra Conor McGregor.

Þeir Joseph ‘Irish Joe’ Duffy og Conor McGregor mættust þann 27. nóvember 2010 á Cage Warriors 39 bardagakvöldinu. Duffy fór létt með McGregor og kláraði hann með hengingu eftir aðeins 39 sekúndur í fyrstu lotu. Duffy sigraði næstu þrjá bardaga en eftir tap gegn Ivan Musardo hætti Duffy í MMA til að einbeita sér að boxi.

Duffy keppti sem atvinnumaður í boxi og sigraði alla sjö bardaga sína. Á sama tíma tók Conor McGregor Cage Warrios samtökin heljargreipum og kom sér í UFC þar sem hann er í dag ein stærsta stjarnan.

Í ágúst í fyrra snéri Duffy aftur í MMA. Hann sigraði tvo bardaga í röð og fékk símtalið frá UFC. Hvert sem hann fer verður ávallt minnst á að hann sé síðasti maðurinn til að sigra Conor McGregor.

Í UFC hefur hann ekki valdið vonbrigðum. Hann hefur sigrað báða bardaga sína með miklum yfirburðum og verður nú í aðalbardaga kvöldsins um helgina – 14 mánuðum eftir að hann snéri aftur í MMA.

Þeir Duffy og McGregor hafa farið ólíkar leiðir frá því þeir mættust. Conor McGregor rífur kjaft við hvern sem er og er einn umtalaðasti og umdeildasti bardagamaður UFC. Þrátt fyrir allan glamúrinn í kringum hann, dýru jakkafötin og villuna sem hann leigði, hefur hann ávallt haldið tryggð við SBG liðið og John Kavanagh.

Duffy er mun hæglátari og rólegri í fjölmiðlum heldur en McGregor. Margir Írar eiga auðveldara með að tengja við hinn hlédræga Duffy fremur en hinn ærslafulla Conor McGregor. Ólíkt McGregor æfir Duffy að mestu hjá Tristar í Kanada. Þar æfir hann með mönnum eins og Rory MacDonald og Georges St. Pierre undir handleiðslu hins virta Firas Zahabi. Það er nokkuð sem McGregor hikar ekki við að gagnrýna.

Duffy er góður boxari en er einnig lunkinn í gólfglímunni. Hann hefur klárað níu bardaga með uppgjafartaki og fjóra með rothöggi.

Hvert sem Duffy fer er hann spurður út í Conor McGregor af fjölmiðlum. Eftir því sem hann sigrar fleiri bardaga í UFC kemst hann nær McGregor en er þó meðvitaður um að enn sé langt í að þeir mætist aftur.

Duffy fær erfiða prófraun á laugardaginn þegar hann mætir Dustin Poirier. Þó Duffy hafi farið létt með fyrstu andstæðinga sína í UFC er himinn og haf milli Poirier og Ivan Jorge.

Er hann tilbúinn í þá bestu í léttvigtinni? Það kemur í ljós á laugardaginn en bardagakvöldið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending kl 20.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.