Þeir Dana White og Floyd Mayweather sáust saman á körfuboltaleik í gær. Í færslu á Instagram segir Floyd að þeir séu að fara að vinna saman.
Dana White, forseti UFC, og boxarinn Floyd Mayweather (50-0) virðast vera með eitthvað í pípunum saman. Floyd er einn besti boxari sögunnar en hann lagði hanskana á hilluna árið 2015. Floyd snéri svo aftur til að mæta Conor McGregor í ágúst 2017 en bardaginn var samvinnuverkefni Floyd, UFC og fleiri aðila.
Miðað við færslur Dana White og Floyd virðist eitthvað vera á leiðinni frá þeim.
Í fyrri færslunni segist Floyd vera að vinna aftur með Dana til að færa heiminum stórkostlegan viðburð á næsta ári. Í seinni færslunni segist Floyd vera að snúa aftur eftir að hafa lagst í helgan stein.
Dana White hefur sagt að hann vilji fara í boxið og lengi talað um að Zuffa Boxing myndi hefja störf innan tíðar. Hugsanlega mun Floyd vinna með Dana White að næsta bardaga.