Það er ekkert grín að keppa í blönduðum bardagalistum – það þarf að þola sársauka til að berjast og það er nokkuð sem bardagamenn þurfa að venjast. Hversu oft höfum við séð bardagamann sárþjáðan en ná samt að knýja fram sigur?
Stundum enda meiðsli feril íþróttamannanna og stundum enda þau bardagann. Það er líka algengt að bardagamenn sætti sig við að berjast þrátt fyrir meiðsli frá æfingum. Við höfum líka séð bardagamenn meiðast alvarlega í búrinu, harka af sér, berjast áfram og sigra. Hér eru tíu bardagar þar sem sigurvegarinn lét alvarleg meiðsli ekki stöðva sig.
https://www.youtube.com/watch?v=dXFXvaE49YA
10. Scott Smith gegn Pete Sell – TUF 4 Finale
Eftir þrjár mínútur og 20 sekúndur af annarri lotu lenti Pete Sell níðþungu höggi í skrokk Smith sem sendi Smith næstum í gólfið. Sell virtist hársbreidd frá sigri en þegar hann hljóp að Smith til að enda bardagann tók Smith á móti honum með rothöggi. Það tók þá álíka langan tíma að geta staðið upp eftir bardagann.
https://www.youtube.com/watch?v=YJHx-JTQDTY
9. Junior dos Santos gegn Cain Velasquez – UFC on Fox: Velasquez vs. dos Santos
Junior dos Santos vissi að það væri einstakt tækifæri að berjast við Velasquez um þungavigtartitil UFC þannig að hann lét alvarleg hnémeiðsli ekki stoppa sig. Þó hann hefði verið að hækjum viku fyrir bardagann tókst dos Santos að tryggja sér beltið með því að rota Velasquez eftir 64 sekúndur. Hann var heppinn að bardaginn var stuttur.
8. Jon Jones gegn Chael Sonnen – UFC 159
Jones tók ekki eftir því að hann hefði meiðst fyrr en eftir bardagann. Hann var nýbúinn að fá beltið utan um sig og ætlaði að fara að spjalla við Joe Rogan þegar hann áttaði sig á því að hann hefði brotið stóru tána illa í bardaganum gegn Sonnen. Honum var greinilega brugðið, en lét sig þó hafa það að svara spurningum Rogan eftir að hafa fengið sér sæti.
7. Randy Couture gegn Gabriel Gonzaga – UFC 74
Gonzaga braut framhandlegg Couture með háu sparki í bardaganum en Couture tókst samt að sigra með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu. Couture komst ekki að því að hann væri handleggsbrotinn fyrr en daginn eftir þegar hann fór í röntgen-myndatöku.
6. Uriah Hall gegn Thiago Santos – UFC 175
Jones er ekki sá eini sem hefur harkað af sér alvarleg támeiðsli. Hall slasaðist alvarlega á tánni í fyrstu lotu í bardaganum gegn Santos en þraukaði í gegnum þrjár lotur og sigraði á stigum. Adrenalínið hjálpaði Hall vissulega að umbera sársaukann en hann sagðist hafa fundið beinið færast til undir húðinni í hvert sinn sem hann sparkaði eftir meiðslin.
5. Georges St. Pierre gegn Thiago Alves – UFC 100
Á milli fjórðu og fimmtu lotu í bardaga GSP gegn Alves tilkynnti GSP þjálfara sínum, Greg Jackson, að hann hefði rifið nárann. Jackson ráðlagði GSP að berja Alves með klofinu. GSP hélt áfram að berjast og endaði með því að sigra bardgann á stigum. Hann gerði samt enga tilraun til að berja Alves með klofinu.
4. Demetrious Johnson gegn Miguel Torres – UFC 130
Snemma í annarri lotu varði Torres fast lágspark frá Johnson sem fann strax að eitthvað var að. Hann beit á jaxlinn og sigraði bardagann á stigum en þegar hann sneri aftur til vinnu og fóturinn stökkbólgnaði kom í ljós að hann væri fótbrotinn. Aftur á móti fékk hann hins vegar þetta flotta ökutæki vegna meiðslanna svo þetta var ekki alslæmt.
3. Chuck Liddell gegn Rich Franklin UFC 115
Liddell handleggsbraut Franklin snemma með sparki sem Franklin varði með framhandleggnum en Franklin hélt áfram að kýla Liddell með brotnu höndinni og rotaði Liddell í lok fyrstu lotu.
2. Conor McGregor gegn Max Holloway – UFC Fight Night 26
Í annarri lotu sleit McGregor krossband í hnénu en það hægði ekki á honum heldur breytti hann nálgun sinni og sigraði Holloway á gólfinu í stað þess að standa með honum. McGregor taldi meiðslin léttvæg áður en hann vissi hver raunin var en hann þurfti skurðaðgerð og var frá í 11 mánuði.
1. Ben Rothwell gegn Gilbert Yvel – UFC 115
Rothwell sleit liðband í hnénu í fyrstu fellu í 1. lotu og þurfti tvær skurðaðgerðir eftir bardagann við Yvel. Meiðslin héldu honum frá keppni í 14 mánuði. Þrátt fyrir meiðslin náði hann samt að sigra Yvel á stigum með því að lenda höggum og yfirbuga hann á gólfinu.