Thursday, April 25, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 5 nýgræðingar sem vert er að fylgjast með

Föstudagstopplistinn: 5 nýgræðingar sem vert er að fylgjast með

UFC er duglegt að semja við efnilega bardagamenn og eru með marga unga og spennandi bardagamenn á sínum snærum. Föstudagstopplistinn þessa vikuna er helgaður þessum köppum. Við ætlum að skoða fimm bardagamenn sem eru tiltölulega nýjir í UFC (með tvo bardaga eða minna) en gætu komist langt á næstu árum.

 

5. Mirsad Bektic – Fjaðurvigt – 8-0 (1-0 í UFC)

Mjög kraftmikill fjaðurvigtarmaður og sigraði sinn fyrsta UFC bardaga í apríl fyrr á þessu ári. Í bardaganum var hann vankaður eftir ólöglegt hnéspark en sýndi mikið hjarta og hélt ótrauður áfram og endaði á að sigra eftir dómaraákvörðun. Hann er með gott “ground and pound” og mætir Max Holloway þann 23. ágúst. Æfir hjá American Top Team og eru margir sem spá honum mikilli velgengni í framtíðinni.

alex garcia

4. Alex Garcia – Veltivigt – 12-1 (2-0 í UFC)

Minnir um margt á Hector Lombard en þessi 27 ára bardagamaður æfir með Tristar í Kanada. Garcia er fæddur og uppalinn í Dóminíska lýðveldinu og er með eitt tap á bakinu í 13 bardögum. Hann hefur sigrað báða UFC bardaga sína til þessa og gæti farið langt undir handleiðslu Firas Zahabi hjá Tristar. Garcia mætir Neil Magny þann 23. ágúst.

3. Pedro Munhoz – Bantamvigt – 11-1 (1-1 í UFC)

Fyrsti bardagi Munhoz í UFC var ekki beint auðveldur. Þar mætti hann Raphael Assuncao en Assuncao er einn af betri bantamvigtarmönnum veraldar (er í 3. sæti á styrkleikalista UFC). Munhoz tapaði bardaganum eftir dómaraákvörðun en sýndi að hann á vel heima í UFC. Þessi 27 ára Brasilíumaður æfir hjá Kings MMA ásamt mönnum eins og Rafael Dos Anjos, Beneil Dariush og Fabricio Werdum. Hann er með gott box og gott framspark í skrokkinn en gólfglíman er hans sterkasta vopn. Verður gaman að fylgjast með honum í náinni framtíð.

aljamain-sterling

2. Aljamain Sterling – Bantamvigt – 10-0 (2-0 í UFC)

Þessi 24 ára Bandaríkjamaður æfir hjá Serra-Longo ásamt mönnum eins og Chris Weidman. Sterling hefur stundum verið nefndur Mini-Jones þar sem þeir þykja líkir í útliti. Að auki var það Jon Jones sem fékk Sterling til að prófa MMA þar sem Sterling fékk að æfa með Jones á sumrin og því hefur þetta viðurnefni fest við hann. Sterling þykir fær glímumaður og var afar sannfærandi í sigri sínum á Hugo Viana fyrr í mánuðinum.

1. Brandon Thatch – Veltivigt – 11-1 (2-0 í UFC)

Brandon Thatch hefur sigrað báða bardaga sína í UFC eftir tæknilegt rothögg eftir hnéspörk. Hann er hávaxinn veltivigtarmaður (188 cm á hæð) með drápseðli í lagi en hann hefur aðeins einu sinni farið í dómaraákvörðun (hans eina tap í öðrum bardaga hans). Sjö sigrar eftir rothögg og fjórir eftir uppgjafartök hafa vakið athygli bardagaáhugamanna og eru margir sem spá því að hann geti farið langt. Thatch mætir Jordan Mein þann 23. ágúst og leysir af Thiago Alves sem meiddist.

brandon thatch gif

 

Aðrir sem hefði verið hægt að nefna: Jim Alers, Sean Strickland, Choi Doo-Ho, Chris Holdsworth og Hacran Dias.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular