Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 6 mestu vonbrigðin í UFC

Föstudagstopplistinn: 6 mestu vonbrigðin í UFC

Við hér á MMA fréttum ætlum að vera með fastan lið sem kallast Föstudagstopplistinn. Í dag ætlum við að skoða topp 6 mestu vonbrigðin í UFC. Margir keppendur hafa komið frá öðrum samtökum inní UFC með töluvert “hype” á bakinu. Í sumum tilfellum hafa þeir staðið undir væntingum, en þar má sem dæmi nefna Anderson Silva sem kom úr PRIDE og Cage Rage og einokaði UFC millivigtartitilinn í sex ár. Aðrir hafa þó ekki staðið sig eins vel og munum við fara yfir þá hér.

 

Brian Bowles

Bowles

Þrátt fyrir að vera með sömu klippingu og Justin Bieber, var Brian Bowles eitt sinn með þeim allra bestu í bantamvigtinni og var honum spáð góðu gengi í UFC.

Bowles sigraði fyrstu 7 MMA bardagana sína og í þeim áttunda vann hann WEC titilinn eftir sigur gegn þáverandi bantamvigtarmeistaranum Miguel Torres. Þessi úrslit voru vægast sagt óvænt, þar sem Torres hafði aðeins tapað einusinni í 38 bardögum og var búinn að vinna 17 bardaga í röð. Í næsta bardaga mætti Bowles Dominick Cruz, en Cruz er núverandi heimsmeistari í bantamvigt UFC. Bowles braut hendina í annari lotu, bardaginn var stöðvaður á læknaúrskurði og fyrsta tap Bowles var staðreynd. Þrátt fyrir þetta höfðu menn miklar væntingar til hans þegar WEC var sameinað UFC og var talið að hann yrði fremstur í flokki bantamvigtarmanna UFC.

Í fyrstu hélt Bowles uppteknum hætti með sigrum gegn Damacio Page og Takeya Mizugaki, en í þriðja bardaga sínum tapaði hann þegar hann lenti í frægu guillotine Urijah Faber. Margir vildu meina að þetta tap hafi haft áhrif á Bowles andlega, því hann keppti ekkert næstu 18 mánuðina.

Hann snéri svo aftur í maí á þessu ári til að mæta George Roop, en tapaði með tæknilegu rothöggi í annari lotu. Í kjölfarið féll hann á lyfjaprófi eftir að testósterón magn í blóði mældist langt yfir leyfilegum mörkum. Testósterón hlutfall hans var það hátt að aðeins einn annar íþróttamaður hefur mælst hærri í sögu mælinga í Nevada fylki. Enn er óvíst hvort þessi 33 ára bardagakappi snúi aftur í UFC, en ferill hans er gott dæmi um hve fljótt hlutirnir breytast í MMA. Fyrir aðeins þremur árum var hann WEC meistarinn með 8 sigra og 0 töp en á í dag líklegast ekki afturkvæmt í UFC.

 

Jason ‘Mayhem’ Miller

Mayhem Miller

Mayhem Miller var einna frægastur fyrir skrautlegar innkomur í bardagögum sínum og fyrir að stýra MTV þáttunum ‘Bully Beatdown’. Miller barðist í fyrsta sinn 1998 og er því einn af frumkvöðlum íþróttarinnar. Árið 2006 var Miller með árangur uppá 16-3 og var boðinn samningur í UFC. Í fyrsta bardaga sínum var hann talinn sigurstranglegri, en andstæðingur hans var ungur og óþekktur Kanadabúi að nafni George St. Pierre. Miller tapaði og var í kjölfarið leystur undan samningi við UFC. Á næstu árum tókst Miller að sigra nokkra öfluga keppendur, svo sem Tim Kennedy og goðsögnina Sakuraba.

Það var því nokkur eftirvænting í mönnum þegar Miller, þá 28-7-1, var fenginn til að vera þjálfari andspænis Michael Bisping í The Ultimate Fighter. Rígur þeirra tveggja var skemmtilegur og var talið að Miller ætti ágætis möguleika á að sigra Bisping með því að ná honum í gólfið. Í fyrstu lotunni gerði Miller nákvæmlega það, en í þeirri annari var allur vindur úr Miller og greinilegt að Bisping var með betra úthald. Að lokum tapaði Miller á tæknilegu rothöggi eftir að hafa litið illa út á köflum. Í næsta bardaga sínum í UFC mætti Miller C.B Dollaway. Fyrir bardagann lét Miller hafa eftir sér að hann myndi hætta í MMA ef hann tapaði gegn jafn slökum bardagamanni og Dollaway. Miller tapaði á dómaraúrskurði og til marks um slaka frammistöðu Miller skráði einn dómarinn bardagann sem 30-26. Í kjölfarið var Miller rekinn af Dana White. Síðan þá hefur Miller komist ítrekið í kast við lögin og óttast margir að hann eigi við geðræn vandamál að stríða.

 

Yosihiro Akiyama

Akiyama, einnig þekktur sem Sexyama, er af mörgum talinn kynþokkafyllsti MMA keppandi fyrr og síðar.

Akiyama
Akiyama starfar einnig sem módel

Hann er mikill júdó sérfræðingur, en einnig þunghöggur og hefur unnið marga bardaga á rothöggi. Árið 2006 vann hann HERO létt-þungavigtartitilinn eftir sigur gegn Melvin Manhoef. Þegar hann mætti í UFC árið 2009 hafði hann sigrað tólf bardaga á ferlinum og aðeins tapað einum. Í fyrsta UFC bardaganum mætti hann hinum sterka Alan Belcher. Akiyama sigraði eftir klofinn dómaraúrskurð og voru margir á því að Belcher hefði í raun átt að vinna þann bardaga. Í kjölfarið tapaði Akiyama þremur bardögum í röð gegn Chris Leben, Michael Bisping og Vitor Belfort. Dana White lofaði Akiyama að segja ekki upp samningi hans ef hann færði sig niður í veltivigt. Hann færði sig niður um þyngdarflokk og keppti í fyrsta sinn þar í Febrúar 2012 en tapaði fyrir Jake Shields. Margir vilja meina að Akiyama hafi einfaldlega mætt of sterkum andstæðingum á ferli sínum í UFC. Í dag hefur hann tapað fjórum í röð í UFC og ekki keppt í eitt og hálft ár. Það er því óvíst hvort þessi 38 ára myndarlegi bardagakappi snúi aftur til keppni.

 

Hector Lombard

Lombard
Lombard heyrir ekki sérlega vel

Áður en Hector Lombard byrjaði að keppa í MMA var hann Júdókappi í heimsklassa og keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 fyrir hönd Kúbu. Í upphafi MMA ferilsins keppti hann fyrir minni samtök, svo sem Cage Fighting Championships, þar sem hann varð meistari og varði titilinn sjö sinnum. Hann varð einnig meistari í Bellator.

Það var því aðeins tímaspursmál áður en Lombard færði sig yfir í UFC. Orðrómur var uppi um að hann hafi fengið 400 þúsund dollara í “sign-on” bónus hjá UFC og 300 þúsund dollara pr. bardaga, sem verður að teljast nokkuð gott fyrir nýliða í samtökunum.

Fyrir frumraun sína í UFC var Lombard ósigraður í 25 bardögum í röð. Hann var bæði Bellator og CFC meistarinn og hafði samanlagt sigrað 31 bardaga og aðeins tapað tvisvar. Þessi tvö töp voru frá PRIDE keppnum árið 2006 og því ansi langt síðan Lombard hafði beðið ósigur.

Í fyrsta bardaga sínum mætti Lombard Tim Boetch og bjuggust menn við spennandi bardaga. Annað kom þó á daginn þar sem Lombard hreyfði sig varla, heldur gekk hann um hringinn og reyndi sama hægri krókinn í 15 mínútur. Að lokum sigraði Boetch eftir klofinn dómaraúrskurð. Lombard vann Rousimar Palhares með rothöggi í næsta bardaga en tapaði svo aftur eftir klofinn dómaraúrskurð gegn Yushin Okami. Síðustu tveim andstæðingum Lombard, Palhares og Okami, hefur báðum verið sagt upp samningi í UFC. Lombard keppir nú um helgina í fyrsta sinn í veltivigt gegn Nate Marquardt. Marquardt hefur tapað tveim í röð og spurningin er hvort hann lendi í ‘Lombard bölvuninni’ og verði látinn taka pokann sinn, eða hvort það verði Lombard sem verður sagt upp samningi.

 

Alistair Overeem

Overeem

Í síðustu viku fjölluðum við um Alistair Overeem og veltum upp þeirri spurningu hvort hann væri búinn á því.

Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um þennan fyrrum Strikeforce, K-1 og DREAM meistara, en ferill hans í UFC hefur vægast sagt verið vonbrigði. Overeem keppir við Frank Mir í Nóvember og telja margir að það sé skyldusigur fyrir Hollendinginn ætli hann sér að halda áfram að keppa í fremstu röð.

 

Mirko ‘CroCop’ Filipović

CroCop
“Right leg, hospital; left leg, cemetery”

Mirko CroCop er ein helsta goðsögnin í MMA heiminum fyrr og síðar. Hann hefur bæði unnið K-1 og PRIDE titlana og sigrað marga af bestu bardagamönnum heims, svo sem Sakuraba, Josh Barnett, Wanderlei Silva o.s.fl. Josh Barnett hefur aðeins tapað sex sinnum á 16 ára ferli sínum og þrjú þeirra eru gegn CroCop. Á tímabili var CroCop talin óstöðvandi. Á árunum 2004-2006 barðist hann 17 sinnum gegn öllum bestu þungarvigtarmönnum heims og tapaði aðeins gegn tveim þeirra (gegn Mark Hunt og Fedor Emelianenko).

Þessir bardagar hafa þó greinilega tekið sinn toll af CroCop, því þegar hann kom í UFC árið 2007 náði hann aldrei aftur sömu hæðum. Eftir sigur í frumraun sinni mætti hann BJJ sérfræðingnum Gabriel Gonzaga. Flestir bjuggust við að CroCop myndi valta yfir Gonzaga en í staðinn var það Gonzaga sem rotaði CroCop með höfuðsparki. Það þótti kaldhæðnislegt, þar sem aðal vopn CroCop voru höfuðspörk hans.

Í kjölfarið átti CroCop misjöfnu gengi að fagna í UFC, en hann tapaði meðal annars gegn Cheick Kongo og Brendan Schaub. Óhætt er að fullyrða að CroCop hefði sigrað þessa menn auðveldlega þegar hann var á hátindi ferilsins. Í dag er CroCop að keppa í minni samtökum og er m.a. búist við því að hann mæti Alexander Emelianenko í Nóvember á þessu ári. Vonandi fer hann þó brátt að leggja hanskana á hilluna áður en hann gengur endanlega frá goðsögninni sem ferillinn hans var.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular