spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentFriðsæli stríðsmaðurinn Demian Maia

Friðsæli stríðsmaðurinn Demian Maia

Demian maiaEins og við greindum frá í gær mætast þeir Demian Maia og Gunnar Nelson á UFC 194. Þetta verður stærsti bardagi Gunnars á ferlinum og frábært skref upp á við. En hver er þessi Demian Maia og af hverju verður þetta svona spennandi bardagi?

Demian Maia er í sjötta sæti á styrkleikalista UFC og sigrað þrjá bardaga í röð. Hann sigraði síðast Neil Magny eftir hengingu í 2. lotu eftir mikla yfirburði. Þetta var tíundi sigur hans á ferlinum með uppgjafartaki sem er ekki skrítið þar sem Maia er einn allra besti glímumaður heims.

Maia er 37 ára gamall og byrjaði í brasilísku jiu-jitsu 19 ára gamall. Hann hafði áður æft júdó, kung-fu og karate en í brasilísku jiu-jitsu (BJJ) fann hann sig. Honum tókst að fá svarta beltið í BJJ á rúmum fjórum árum sem er undraverður árangur. Það tekur að meðaltali um tíu ár að fá svarta beltið og því vakti það athygli þegar hann fékk svarta beltið svo fljótt. Þess má geta að Gunnar Nelson var einnig fjögur ár að ná svarta beltinu í brasilísku jiu-jitsu.

Maia varð strax mjög góður í BJJ enda æfði hann tvisvar til þrisvar á dag og keppti á öllum mótum með góðum árangri. Maia varð heimsmeistari fjólublábeltinga árið 2000 og er þrefaldur heimsmeistari í flokki svartbeltinga. Auk þess sigraði hann sinn flokk á ADCC (sterkasta uppgjafarglímumót heims) árið 2007 og nældi sér í silfur árið 2005.

Það er stór munur á að vera svart belti í brasilísku jiu-jitsu og að vera heimsklassa svart belti. Gunnar og Maia eiga báðir heima í seinni hópnum. UFC bardagamaðurinn Frank Mir hefur verið lengi svart belti en hann fékk Maia til að aðstoða sig í undirbúningi fyrir titilbardaga árið 2010. „Ég hélt ég væri góður að glíma þangað til ég glímdi við Maia,“ sagði Mir um Maia. Þess má geta að Mir berst í þungavigtinni og var UFC meistari um tíma.

Demian Maia hefur sigrað marga góða glímumenn í UFC á borð við Jon Fitch, Rick Story, Ryan LaFlare, Dong Hyun Kim, Jorge Santiago, Chael Sonnen og Ed Herman. Í þessum hópi eru að minnsta kosti þrír svartbeltingar en enginn olli Maia vandræðum í glímunni.

Demian Maia klárar Chael Sonnen með „triangle“ hengingu.
Maia klárar Chael Sonnen með „triangle“ hengingu.

Maia barðist um millivigtartitilinn gegn Anderson Silva árið 2010. Maia tapaði fyrir landa sínum eftir dómaraákvörðun en bardaginn var einn sá furðulegasti í sögu UFC. Anderson sótti lítið í seinni lotunum og vildi niðurlægja Maia. Sagan segir að hann hafi kallað Maia glaumgosa sem þykir mjög niðrandi í Brasilíu. Ólíkt Anderson kom Maia ekki úr fátækt og því þykir glaumgosatitillinn gefa til kynna að Maia hafi ekki þurft að hafa fyrir neinu.

Þetta var aðeins annað tapið hans á ferlinum en fyrsta tapið kom gegn Nate Marquardt árið 2009. Marquardt rotaði Maia eftir aðeins 21 sekúndu og er það enn í dag eina tap Maia eftir rothögg. Hin fimm töpin hans hafa komið eftir dómaraákvarðanir og er óhætt að segja að það sé erfitt að klára Maia. Takist Gunnari að rota eða sigra Maia á uppgjafartaki væri það frábært afrek.

Demian Maia hengir Rick Story.
Maia hengir Rick Story.

Fimm af sex töpum Maia hafa komið gegn UFC meisturum eða mönnum sem hafa barist um titil í UFC. Sá eini sem hefur sigrað Maia og ekki barist um titil er Mark Munoz en það tap var umdeilt og fannst mörgum að Maia hefði átt að fá sigurinn dæmdan sér í vil.

Demian Maia hefur sigrað þrjá bardaga með tæknilegu rothöggi en tvö af þessum „rothöggum“ voru meiðsli andstæðinga. Maia hefur sagt að hann vilji ekki meiða andstæðinga sína og kjósi frekar að nota jiu-jitsu til að yfirbuga andstæðinginn án þess að valda honum miklum skaða.

„Ég leitast alltaf eftir uppgjafartakinu. Í þessari bardagalist sem við elskum svo mikið leitumst við eftir að láta andstæðinginn gefast upp með uppgjafartökum en reynum ekki að meiða hann með höggum. Ég vil auðvitað vinna en ég vil sýna heiminum jiu-jitsu og sýna að það er hægt að vinna bardaga án þess að meiða andstæðinginn,“ sagði þessi friðsæli stríðsmaður.

Síðan Maia færði sig niður í veltivigt hefur hann sigrað sex bardaga og tapað tveimur. Hann er eins og áður segir í 6. sæti á styrkleikalistanum og mun sigur hjá Gunnari fleyta okkar manni hátt upp listann. Gunnar er sem stendur í 11. sæti og mun pottþétt fara upp í 5.-8. sæti með sigri. Það er þó alltof snemmt að spá í hvar Gunnar verður á listanum með sigri enda langt í bardagann og getur listinn breyst mikið á þessum tíma.

Maia verður erfiðasta prófraun Gunnars til þess og frábær viðureign fyrir áhorfendur. Frá því Gunnar kom fyrst í UFC hafa aðdáendur óskað eftir þessum bardaga. Það er ekki oft sem svona tveir góðir glímumenn koma saman og því eru margir bardagaaðdáendur gríðarlega spenntir fyrir viðureigninni. Bardaginn fer fram þann 12. desember í Las Vegas og þurfa bardagaaðdáendur að bíða þolinmóðir í tæpa 100 daga.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular