spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Bas Rutten

Goðsögnin: Bas Rutten

bas ruttenGoðsögnin að þessu sinni er hinn málglaði og litríki Hollendingur, Bas Rutten. Rutten er einn vinsælasti karakterinn í MMA og var fyrsti Evrópubúinn til að vinna titil í UFC.

Bas Rutten varð þrisvar King of Pancrase meistari, er fyrrum UFC þungavigtarmeistari og endaði feril sinn á 21 bardaga sigurgöngu.

Uppruni

Sebastiaan ‘Bas’ Rutten fæddist í Tilburg, Hollandi þann 24. febrúar 1965. Þegar Rutten var sex ára að aldri greindist hann bæði með exem og slæman astma. Veikindi hans gerðu honum ókleift að taka þátt í íþróttum. Sökum veikinda sinna átti Rutten erfiða æsku og var umfram þess lagður í daglegt einelti af jafnöldrum sínum.

Þegar Rutten var í kringum tólf ára aldur byrjaði hann að hafa áhuga á boxi en foreldrar Rutten voru strangtrúaðir og íhaldssamir og vildu því ekki leyfa Rutten að æfa neinar bardagaíþróttir. Rutten var staðráðinn í að láta hvorki veikindin sín né foreldra sína standi í vegi sínum. Rutten byrjaði ásamt einum félaga sínum að æfa box í laumi í bakgarði skólans.

Rutten hefur greint frá því að ein mikilvægasta upplifun lífs síns var bíóferð á myndina Enter the Dragon þar sem Bruce Lee fór með aðalhlutverkið. Myndin kveikti áhuga Rutten á að víkka þekkingu sína á bardagaíþróttum út fyrir boxið. Eftir að hafa séð myndina grátbað hann foreldra sína um að fá að æfa bardagaíþróttir.

Rutten fékk loksins leyfi til að æfa Taekwondo. Rutten lærði fljótt inn á íþróttina en nokkrum mánuðum eftir að hann byrjaði að æfa lenti Rutten í slagsmálum við einn strák úr hverfinu sínu. Strákurinn hafði verið að leggja Rutten í einelti og fékk Rutten upp í kok af honum og ákvað að verja sig. Rutten rotaði strákinn og nefbraut hann með sínu fyrsta höggi. Í framhaldi þess fékk hann ekki lengur að æfa bardagaíþróttir.

Það var ekki fyrr en Rutten flutti að heiman í kringum tvítugsaldurinn sem hann byrjaði að æfa aftur og stuttu seinna byrjaði hann að keppa í Muay Thai. Rutten gekk mjög vel og vann fyrstu 14 bardaga sína með rothöggi, alla nema einn í fyrstu lotu.

Eftir Muay Thai færði Rutten sig yfir í MMA. Þar barðist hann mestmegnis af ferli sínum fyrir Pancrase bardagasamtökin í Japan. Reglur Pancrase voru aðeins öðruvísi en reglur MMA í dag. Helsti munurinn var sá að barist var án hanska og voru aðeins leyfð högg í höfuðið með opnum lófa.

Bas Rutten í Pancrase.
Bas Rutten í Pancrase.

Einkenni

Bas Rutten verður alltaf þekktur fyrir að veita þung högg í lifrina, bæði spörk og hnefahögg (e. liver shot). Hann var líka þekktur fyrir að klára bardaga sína. Af þeim 28 sigrum á ferlinum kláraði hann 25 bardaga, 12 með rothöggi og 13 með uppgjafartaki. Rutten var mjög höggþungur og var einnig með ein öflugustu spörk sem sést hafa í MMA. Allir vory smeykir við að mæta honum að sögn Frank Shamrock.

Stærstu sigrar

Fyrsti stórsigur Rutten kom í öðrum bardaga hans gegn Minoru Suzuki. Bardaginn var upp á titilinn King of Pancrase og sigraði Rutten með „guillotine“ hengingu. En sá bardagi sem stendur hvað hæst upp úr á ferlinum var annar bardagi hans gegn Masakatsu Funaki. Í viðtali lýsir Rutten þessum bardaga sem algjöru stríði. Eftir jafna viðureign fyrri hluta bardagans byrjaði Rutten að ná yfirhöndinni. Í lok bardagans lamdi Rutten hinn japanska Funaki nokkrum sinnum í gólfið áður en hann sigraði bardagann á sautjándu mínútu með hnésparki. Rutten sagðist hafa gefið allt sem hann átti eftir í þetta spark og féll Rutten niður á gólfið í kjölfarið sökum ofþreytu.

Þá voru sigrar hans á Kevin Randleman og Frank Shamrock stórir.

Verstu töp

Rutten tapaði aðeins fjórum sinnum á MMA ferli sínum (28-4-1). Fyrsta tap hans var gegn Masakatsu Funaki. Það var aðeins þriðji bardagi hans á ferlinum og var hann á þeim tímapunkti ekki nógu klár á jörðinni. Funaki hafði mun meiri reynslu í glímu og uppgjafartökum og kláraði bardagann eftir aðeins þrjár mínútur. Næstu þrjú töp hans voru öll gegn Shamrock bræðrunum Frank og Ken. Rutten mætti Ken Shamrock í tvígang og tapaði báðum viðureignunum með uppgjafartaki. Eftir seinni viðureign þeirra einbeitti Rutten sér að gólfglímunni enda sigraði hann sjö af næstu átta bardögum sínum með uppgjafartökum.

Tap Rutten gegn Frank Shamrock kom öllum að óvörum. Á þessum tíma var Rutten talinn einn besti keppandinn í Pancrase á meðan Frank Shamrock var að keppa sinn fyrsta bardaga í MMA. Eftir jafnan bardaga sigraði Shamrock á umdeildri dómaraákvörðun.

Fáir vita

Bas Rutten er menntaður kokkur.

Á Pride 2 var Rutten bæði í horninu hjá Mark Kerr og að lýsa bardaganum á sama tíma. Ástæðan er sú að enska lýsingin var ekki tekin upp í beinni útsendingu heldur nokkrum vikum síðar. Þegar þeir Bas Rutten og Stephen Quadros lýstu bardaga Gary Goodridge og Amir Rahnavardi nokkrum mánuðum eftir bardagann talaði Quadros um slæmt tap Rahnavardi gegn Gary Goodridge. Tapið sem hann var að tala um var bardaginn sem hann var að lýsa..

Bas Rutten á margar skemmtilegar sögur af sér og er sú þekktasta er hann lenti í áflogum við dýraverði í Svíþjóð.

https://www.youtube.com/watch?v=ivI8omve0_s

Hér er ein önnur saga frá þessum skemmtilega karakter.

Hvar er hann í dag?

Eftir að hafa sett hanskana upp á hilluna hefur Rutten gert ýmislegt. Stuttu eftir að hafa hætt í MMA reyndi hann fyrir sér sem leikari og fékk lítil hlutverk hér og þar. Hans stærsta hlutverk kom mun seinna þegar hann lék Niko í kvikmyndinni Here Comes the Boom. Rutten var lengi vel lýsandi hjá Pride samtökunum en sagði skilið við starfið sökum þess hve langan tíma það krafðist fjarveru frá fjölskyldu hans. Í dag stjórnar hann þættinum Inside MMA ásamt Kenny Rice þar sem þeir fjalla um allt það helsta sem er að gerast í MMA.

Bas Rutten í hlutverki sínu í myndinni Here Comes The Boom.
Bas Rutten í hlutverki sínu í myndinni Here Comes The Boom.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular