spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Rashad Evans

Goðsögnin: Rashad Evans

Rashad Evans tilkynnti fyrr í vikunni að hann væri hættur í MMA. Evans er goðsögn í MMA heiminum en hér förum við stuttlega yfir ferilinn.

Rashad Evans komst í UFC eftir að hafa unnið 2. seríu The Ultimate Fighter. Þá barðist Evans í þungavigt þrátt fyrir að vera bara 180 cm á hæð. Evans kom verulega á óvart í seríunni en fáir töldu hann eiga möguleika á sigri. Eftir sigur í seríunni fór hann niður í léttþungavigt þar sem hann átti sín bestu ár.

Evans varð meistari með sigri á Forrest Griffin í desember 2008 og varð þar með einn af fáum til að vinna bæði TUF og titil í UFC.

Uppruni

Rashad Evans var orkumikið barn og ólst upp í slæmu hverfi í Bandaríkjunum. Þar þurfti hann stöðugt að verja sig og var einnig alltaf í slagsmálum við eldri bróður sinn. Evans langaði að spila amerískan ruðning en þjálfarinn hans mælti með að hann skyldi æfa glímu til að bæta sig í ruðningnum. Þar með byrjaði hann í ólympískri glímu þar sem hann skaraði fljótt fram úr og missti fljótt áhuga á fótboltanum.

Eftir háskóla ákvað hann að prófa MMA og var það ást við fyrstu sýn. Þremur mánuðum eftir að hann byrjaði að æfa tók hann sinn fyrsta atvinnubardaga og var hann fljótur að læra. Eftir fimm bardaga fór hann í TUF.

Einkenni

Fellurnar voru hans helsti styrkleiki allan ferilinn. Enginn hefur náð fleiri fellum í léttþungavigtinni en Evans og virtist hann geta tekið hvern sem er niður þegar best lét. Hann var líka oftast lægri en andstæðingurinn í léttþungavigt en bætti það upp með hraða og sprengikrafti. Hann var líka oft á tíðum sagður hrokafullur enda var hann stundum að dansa í miðjum bardaga og að tala við andstæðinginn. Hrokinn var þó hvergi sjáanlegur utan búrsins og þá sérstaklega á seinni árum ferilsins.

Stærstu sigrar

Frægasti sigur ferilsins er sennilega rothöggið á Chuck Liddell í september 2008. Liddell var talsvert sigurstranglegri hjá veðbönkum en í 2. lotu steinrotaði hann Liddell með yfirhandar hægri. Rothöggið var valið rothögg ársins af mörgum miðlum og skilaði honum titilbardaga. Hans fyrsti titilbardagi var sennilega hans stærsti sigur en þá kláraði hann þáverandi meistara Forrest Griffin með höggum í gólfinu í 3. lotu.

Verstu töpin

Evans lauk ferlinum með fimm töpum í röð og var það síðasta sérstaklega slæmt. Tapið gegn Lyoto Machida verður sennilega alltaf hans versta tap. Þá tapaði hann titlinum til Machida eftir rothögg í 2. lotu en fyrir bardagann taldi Evans sig vera ósigrandi og var sjálfstraustið í botni. Þá náðist ansi vandræðaleg mynd af Evans þegar verið var að rota hann sem var notað óspart í gríni á hinum ýmsu spjallborðum, kallað „Shad face“. Evans sagði þó sjálfur að þetta hefði verið hans auðveldasta tap á ferlinum.

Fáir vita

Rashad Evans er með BS gráðu í sálfræði og á átta systkini. Evans ólst upp í bæ hjá Niagara fossunum en þann 1. janúar 2009 var sérstakur Rashad Evans dagur honum til heiðurs í bænum.

Hvar er hann í dag?

Evans hefur komið sér vel fyrir eftir langan feril. Hann hefur verið í UFC þáttum á FOX sjónvarpsstöðinni og á glæsilegt hús í Flórída þar sem hann býr í dag. Evans á fjögur börn með þremur konum og skilur eftir sig glæsilegan feril í MMA. Það verður áhugavert að sjá hver hans næstu skref verða nú þegar hann hefur lagt hanskana á hilluna.

Að lokum má enda þetta á gömlu myndbandi bakvið tjöldin á UFC 133 þar sem karakterinn Skippy tók viðtöl við þekkt andlit UFC og þar á meðal Rashad Evans.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular