Í seinni hluta viðtals okkar við Gunnar Nelson horfum við fram á veginn og kemur talið m.a. að næstu skrefum, frumburðinum og neikvæðri umræðu um MMA. Gunnar vill berjast sem oftast á þessu ári.
Í fyrri hlutanum fórum við vel yfir bardagann erfiða gegn Demian Maia.
Sjá einnig: Gunnar Nelson – Ekkert annað að gera en að rífa sig aftur upp á lappirnar og halda áfram (Fyrri hluti)
Í bardagaheiminum er oft sagt „You’re only as good as your last fight“ og geta bardagaðdáendur verið fljótir að gleyma getu bardagamanna. Eina stundina ertu á leið á toppinn en þá næstu muntu aldrei verða meistari. Það þarf þó oft ekki nema einn góðan bardaga til að breyta áliti áhorfenda.
Gunnar tók sér gott jólafrí eftir bardagann en er nú byrjaður aftur að æfa. Gunnari langar að berjast aftur sem fyrst og geta áhorfendur átt von á því að sjá Gunnar oft á þessu ári.
„Mér finnst ég bara vera tilbúinn til að berjast fljótlega. Það er í raun ekkert annað í stöðunni nema að halda áfram að tuskast. Ég ætla að reyna að vera nokkuð duglegur á þessu ári og reyna að ná fjórum bardögum, þrjá til fjóra, en helst fjórum á þessu ári,“ segir Gunnar.
Gunnar hefur nánast alltaf barist tvisvar til þrisvar á ári en árið 2007 tók hann fimm bardaga. Það væri því gaman fyrir Íslendinga að sjá Gunnar sem oftast á árinu. Árið 2016 er rétt að byrja en enn sem komið er er engin dagsetning eða andstæðingur framundan. Það gæti þó breyst einhvern tímann á næstu vikum.
MMA er einstaklingsíþrótt og þrátt fyrir að lið hjálpist að við undirbúning bardagamanna stendur allt og fellur með einstaklingnum í búrinu. Það getur því verið kaldur og einmannalegur raunveruleikinn sem blasir við bardagamanni eftir tap. Vinir og vandamenn eru eflaust til staðar en mörgum finnst betra að vera einir með sjálfum sér eftir slíka reynslu sem Gunnar fór í gegnum. Gunnar var því lítið meðal almennings fyrstu dagana eftir að hann kom heim.
„Það er ekkert gaman að vera einhvers staðar þar sem allir eru að glápa á þig þar sem þú ert allur bólginn og manni finnst maður fá alveg nógu mikla athygli almennt. Þetta er líka eitthvað í eðlinu, maður er að jafna sig og vill vera í friði og ennþá meira þegar maður tapar. Þá hefur maður meira til að hugsa um og ekki er allt eins jákvætt og yndislegt og þegar maður vinnur. Þegar maður er aumur og marinn og meiddur þá er eðlilegt að vera í rólegheitum í kringum sitt fólk að jafna sig.“
Eftir bardagann ríkti nokkuð neikvæð umræða um MMA í þjóðfélaginu og ekki voru allir sammála um ágæti íþróttarinnar. Tveir drengir slógu hvorn annan hnefahöggum í andlitið og vildi skólastjóri Salaskóla kenna hrifningu á Gunnari Nelson um.
Sjálfur gefur Gunnar lítið fyrir slík ummæli og umræðuna almennt. „Mér finnst þetta bara vera barnalegt. Það er barnalegt að reyna að kenna einhverjum eins og mér, sem er að stunda mína íþrótt, um að einhverjir tveir strákar hafi verið að slást á skólalóð. Slagsmál hafa viðgengist helvíti lengi og langt fyrir mína tíð.“
„Ég hef oft sagt það áður að það er kannski ekki fyrir alla að horfa á þetta sport. Foreldrar eiga að dæma um það eða stjórna því hvort börnin sín eigi að horfa á þetta ekki og hvort þau hafi þroska til að skilja hvað er að gerast. Að ætla að kenna Michael Schumacher um að einhver hafi keyrt of hratt niður í bæ er eins asnalegt og það hljómar.“
Fyrir bardagann gegn Maia dvaldi Gunnar í rúma tvo mánuði erlendis við æfingar og var á meðan fjarri 19 mánaða strák sínum, Stíg Tý. Það voru því fagnaðarfundir þegar Gunnar kom heim eftir bardagann og hitti strákinn sinn aftur. „Það er alltaf gaman að koma heim, þau stækka líka svo hrikalega hratt á þessum aldri. Hann er nátturulega núna orðinn að krakka eiginlega, byrjaður að hlaupa um á fullu og klifra og djöflast og tala. Það er alltaf töfrandi augnablik að hitta hann aftur.“
Gunnar var nokkuð marinn í andlitinu eftir bardagann og segir Gunnar að Stígur hafi lítið spáð í marblettunum. „Hann var ekkert að spá í þessu þannig. Hann snerti aðeins á mér andlitið og var svona einu sinni eitthvað að spá í þessu. Hann fann fyrir því að kallinn var í lagi.“
Við látum þetta vera lokaorðin að þessu sinni. Eins og heyra má er Gunnar staðráðinn í að koma sterkari til leiks á nýju ári. Óljóst er hvenær Gunnar mun berjast næst en augljóst að sá bardagi verður afar áhugaverður að sjá.
Að lokum viljum við þakka Gunnari kærlega fyrir viðtalið.