Stóri fjölmiðladagurinn fyrir UFC 194 var í gær. Við spjölluðum við Gunnar Nelson um æfingarnar með Ido Portal, Harley Davidson hjólið, Conor-Aldo bardagann og fleira.
Gunnar og Conor McGregor hafa verið að æfa með hreyfingarsérfræðingnum Ido Portal á undanförnum vikum. Gunnar hefur notið æfinganna og minna þær á gamla tíma. „Hann er algjör snillingur. Vekur upp barnið í manni að æfa með honum. Minnir mig smá á það þegar maður fór út sem krakki og vissi ekkert hvað maður var að gera og var fullur af orku og fór síðan bara að klifra einhvers staðar eða lenda í hinu og þessu. Manni líður alltaf hrikalega vel eftir daginn eftir allar þessar æfingar sem maður er að gera, opnar nýjar víddir fyrir mér,“ segir Gunnar.
Sjá einnig: Leiðin að búrinu – Gunnar Nelson vs. Damian Maia
Talið barst að Harley Davidson hjólinu sem Gunnar fékk í gjöf frá forseta UFC, Dana White, fyrr í sumar en Gunnar hefur ekki enn fengið hjólið afhent. „Ég veit ekki hvað er að frétta. Ég er bara að bíða eftir að þeir sendi þetta kvikindi. Þetta er reyndar eitthvað ægilega custom made dæmi þannig að það tók einhvern tíma að setja það saman en það getur nú varla tekið svona langan tíma. Það hlítur að fara að koma. Ef það verður ekki komið fyrir sumarið verð ég brjálaður.“
Conor McGregor mætir auðvitað Jose Aldo á laugardaginn í aðalbardaga kvöldsins. Gunnar telur að liðsfélagi sinn McGregor klári Aldo. „Ég held að Conor klári hann í 1. lotu mjög snöggt. Það er ef Aldo kemur graður og reiður. Ef Aldo ætlar að vera mjög passasamur og vera ofur meðvitaður um allt sem Conor er að gera þá held ég að það verði bara of mikið og hann klárar hann í 3. eða 4. lotu,“ sagði Gunnar að lokum.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.