Thursday, June 13, 2024
spot_img
HomeForsíðaGunnar: Hef alltaf trú á mínum manni

Gunnar: Hef alltaf trú á mínum manni

Conor McGregor mætir Dustin Poirier á UFC 264 í kvöld. Gunnar Nelson hefur trú á æfingafélaga sínum en telur að hann þurfi að koma með nýja nálgun til að landa sigrinum.

Þetta verður þriðji bardagi Conor og Dustin Poirier en báðir hafa náð einum sigri hvor með rothöggi. Kapparnir mættust fyrst í september 2014 þar sem Conor sigraði með rothöggi en mættust svo aftur í janúar á þessu ári þar sem Poirier kláraði Conor með rothöggi í 2. lotu.

Gunnar Nelson og Conor McGregor hafa mikið æft saman í gegnum ferilinn en lítið á síðustu árum. Gunnar er þó í stöðugu sambandi við Conor.

„Ég tala alltaf mikið við Conor og talaði mikið við hann í byrjun æfingabúðanna. Hugmyndin var að ég myndi fara út í campið hjá honum, en það gekk síðan ekki eftir þar sem ég er ennþá meiddur í rifbeininu. Hann virðist vera helvíti brattur og ég er mjög spenntur fyrir að sjá hvernig hann verður í kvöld,“ segir Gunnar.

Lítið hefur heyrst um æfingabúðir Conor McGregor fyrir bardagann. Conor hefur dvalið í Kaliforníu í æfingabúðum en lítið vitað hverjir eru æfa með honum. „Ég hef ekki séð mikið úr campinu. Sá lista af mönnum sem hann er að æfa með og þekki nokkra af þeim. Þeir eru nokkrir fínir og bara mjög góðir. Vona bara að campið hafi gengið vel.“

Í síðasta bardaga Conor var hann ekki eins hreyfanlegur eins og hann hefur oft verið og var lítið um spörk. Hann stóð í þröngri fótastöðu og telur Gunnar að það hafi verið mistök.

„Ég er á því að ef hann kemur núna og verður með jafn mikinn box stíl og síðast þá eru það mistök. Ég vil sjá Conor eins og hann var, meira elusive og með þetta karate stance. Þá er bæði erfiðara að slá hann og það hentar hans stíl og karakter. Hann er með rosa góð counter, hann er snöggur inn og snöggur að koma sér til baka líka. Mjög fljótur að refsa mönnum þegar þeir vaða inn í hann. Erfiðara að sparka í hann líka. Væri líka til að sjá hann nota spörkin sín meira.“

„Ef hann fer aftur í þennan box stíl eins og síðast, þá gæti þetta verið þungur bardagi fyrir Conor. Þar skýn hann Poirier. Poirier er rosa góður þegar bardaginn fer lengra því hann er rosalega harður af sér. En það er líka bara stíllinn hans. Stíllinn hans Poirier virkar mjög vel þegar andstæðingurinn er flatfóta og ekki mikið inn og út. Bardaginn á það til að verða þannig þegar þetta fer lengra því það hægist á mönnum, menn þreytast, hreyfa sig minna og verða flatfóta. Þar er stíllinn hans Poirier mjög góður. Væri til í að sjá Conor vera meira eins og hann var alltaf áður.“

Conor var í miklum vandræðum með kálfaspörkin síðast og hafði það veruleg áhrif á bardagann. Hvað getur Conor gert núna til að koma í veg fyrir kálfaspörk frá Dustin Poirier? „Vera hreyfanlegur, þá er miklu erfiðara að sparka í kálfan á honum. Passa að settla ekki of mikið í vasanum því þar er svo auðvelt að refsa mönnum í lappirnar. Síðan auðvitað að checka spörkin, hreyfa löppina aftur fyrir, stíga á móti, refsa honum fyrir að sparka, vera tilbúinn fyrir spörkin.“

„Ef Conor er súper mikið að pæla í þessum kálfaspörkum þá er Poirier bara að fara að lenda einhverju öðru. Ég efast ekki um að Conor og John [Kavanagh, þjálfari] séu búnir að fara vel yfir alla vinkla, varnir og counter fyrir þessum spörkum. Almennt séð þarf hann að vera aðeins hreyfanlegri og ekki eins flatfóta í box stíl.“

Fyrir síðasta bardaga þeirra var Conor ekki með neitt skítkast í garð Poirier fyrir bardagann og var hinn vinalegasti. Conor gaf meira að segja 500.000 dollara í góðgerðarsjóð Dustin Poirier en nú er sagan önnur. Conor virðist vera að reyna að drulla yfir Poirier á samfélagsmiðlum og á blaðamannafundinum í gær þó skotin sé misgóð. Er Conor að spila hugarleiki við Poirier til að reyna að komast í hausinn á honum líkt og hann gerði gegn Jose Aldo og fleirum?

„Hann er auðvitað alltaf að reyna að selja bardagann en gæti líka verið að reyna að æsa upp Dustin. Svo gæti hann kannski haldið að hann hafi ekki verið í því hugarástandi síðast sem þurfti og er vanari að vera grimmur og aggressívur í garð andstæðingsins. Svona meiri illindi milli hans og andstæðingsins. Það varð honum oftast í vil og kannski er það bara það sem hann er að reyna núna, aðeins að koma sér í ákveðinn gír. Aldrei að vita.“

Dustin Poirier er sigurstranglegri hjá veðbönkum enda fyrri bardaginn í fersku minni aðdáenda þar sem Poirier kláraði Conor í 2. lotu. En hvernig mun þetta fara í kvöld að mati Gunnars?

„Ég held með mínum manni auðvitað. Ég vil sjá hann rota hann í fyrstu tveimur lotunum, helst í 2. eða 3. lotu. Langar ekki að þetta verði bara eitt högg og rothögg. Væri til í að sjá smá góðan bardaga þeirra á milli, sjá Conor vera búinn að leysa úr flækjunum sem voru síðast og ég held að Conor nái að klára þetta í 1. eða 2. Ég hlakka mest til að sjá fyrstu sekúndurnar til að sjá hvernig Conor mun spila þetta og hreyfa sig. Þetta mun velta mikið á því. Ef þetta dregst of mikið á langinn þá finnst mér eins og það sé klárlega Poirier í vil.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular