Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaSpá MMA Frétta fyrir UFC 264

Spá MMA Frétta fyrir UFC 264

UFC 264 fer fram í kvöld þar sem þeir Conor McGregor og Dustin Poirier mætast í aðalbardaga kvöldsins. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Léttvigt: Dustin Poirier gegn Conor McGregor

Pétur Marinó Jónsson: Er Conor ennþá meðal þeirra bestu í léttvigtinni? Það er í mínum huga stóra spurningin fyrir þennan bardaga. Er hann ennþá með drifkraftinn sem þarf til að komast yfir erfið augnablik eða er þetta bara búið hjá honum sem hluti af elítunni? Það eru ekkert rosalega margir sem hafa trú á Conor fyrir þennan bardaga en hann á alveg að geta klárað Dustin þegar hann er upp á sitt besta. Mér finnst bara eins og Conor sé ekkert upp á sitt besta lengur og hans bestu dagar séu taldir. Hann rotaði alla í fjaðurvigtinni en það virðist vera erfiðara í léttvigtinni. Dustin stóð af sér fyrstu höggin gegn Conor síðast og sá maður að sjálfstraustið hans fór vaxandi um leið og hann fann að hann gat tekið við höggunum hans Conor. Ef Conor vankar hann ekki snemma mun Dustin finna sinn takt og taka yfir.

Conor hefur alltaf náð að sannfæra mig um að hann mun standa uppi sem sigurvegari. Ég hef alltaf spáð honum sigri en í þetta sinn finn ég ekki þessa trú á kallinn. Það vantar eitthvað hjá honum og er ég ekki sannfærður. Ég hlakka til að sjá fyrstu sekúndur bardagans til að sjá hvað Conor ætlar að gera, hvernig leik hann ætlar að spila og hvert planið hans verður. Ég held að þetta verði nokkuð svipað og síðast nema í þetta sinn sjáum við meira frá báðum. Þetta fer oftar í gólfið og munu báðir eiga sín augnablik þangað til Conor þreytist. Dustin mun taka yfir þegar líður á og klárar Conor í 3. eða 4. lotu með TKO.

Óskar Örn Árnason: Eftir síðasta bardaga er erfitt að sjá fyrir sér eitthvað annað en endurtekningu. Dustin er grjótharður, erfiður að klára og virðist eflast eftir því sem líður á bardagann. Það er auðvitað aldrei hægt að afskrifa Conor að öllu leyti. Kannski kemur karate Conor aftur, einbeittur og tékkar spörkin. Hver veit? Ég held að niðurstaðan verði sú sama og síðast en tippa á lotu síðar, TKO í 3. lotu, Poirier.

Guttormur Árni Ársælsson: Mér fannst Conor vera að sigra bardaga nr. 2 framan af, þangað til að kálfaspörkin frá Dustin fóru að hafa áhrif á hreyfanleika Conor. Fyrir mér er stóra spurningin í þessum bardaga hvort Conor sé með einhver svör við þessum kálfaspörkum. Ég spái því að honum takist það og sigri Dustin með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Það verður mjög spennandi að sjá hvaða breytingar Conor gerir. Ég held að með nokkrum breytingum geti hann gert Dustin erfitt fyrir að endurtaka leikinn frá því síðast. Ég á samt erfitt með að sjá fyrir mér nógu miklar breytingar til að Conor geti klárað hann þar sem Dustin er orðinn svo mikið betri í að færa sig með höggunum og verja þau. Það hægist yfirleitt hratt á Conor eftir miðbik annarrar lotu og Dustin hefur oft orðið betri þegar líður á bardaga. Dustin TKO lota 4.

Dustin Poirier: Pétur, Óskar, Brynjólfur
Conor McGregor: Guttormur

Veltivigt: Gilbert Burns gegn Stephen Thompson

Pétur Marinó Jónsson: Þessi verður mjög spennandi og get ég ekki beðið eftir að sjá hvað gerist. Þetta er bara karate vs. BJJ en auðvitað báðir mjög góðir á öllum vígstöðum. Burns er þó mun betri striker heldur en Thompson sem glímumaður og getur alveg plummað sig vel standandi. Thompson mun lenda í verulegum vandræðum ef hann verður tekinn niður en spurning hvort þetta fari þangað. Thompson ætlar að vera á hjólinu, forðast Burns, lenda góðum gagnárásum og verður athyglisvert að sjá hvernig Burns ætlar að loka fjarlægðinni. Þetta snýst um lappir og lungu eins og pabbi Thompson orðaði það. Ef leikáætlun Thompson virkar vel gegn Burns er ég bara orðinn nokkuð spenntur að sjá hann gegn Usman. Ætla að tippa á að fótavinna Thompson hafi betur í kvöld og Wonderboy vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Mjög áhugaverður bardagi hér á ferð sem virkar mjög jafn á pappírunum. Wonderboy er orðinn 38 ára en virðist enn hafa það ef svo má segja. Með sigri gæti hann komið sér fljótlega í titilbardaga þó svo að samkeppnin sé hörð. Burns er í aðeins annarri stöðu en hann þarf að vinna til að halda stöðu sinni og koma sér í annan stóran bardaga. Það verður áhugavert að sjá hverning þetta spilast en ég ætla að taka sénsinn á gamla gaurnum. Thompson tekur þetta á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Þetta er mjög áhugaverður bardagi sem er erfitt að spá fyrir um. Ég hugsa að ef Thompson tekst að halda sér á hreyfingu að þá ætti hann að geta pikkað Burns í sundur standandi. Thompson á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Skemmtilegur bardagi og nokkuð áhugavert match up. Ég held að Burns spili mikið inn í leik Thompson með því að hlaupa inn með þung högg, reyna að pressa mikið á andstæðinginn og setja hann á búrið og taka niður þar. Þetta er akkúrat týpan sem Thompson dansar í kringum, stoppar með hliðarsparkinu og counterar. Það sem mér finnst gera Burns aðeins meira spennandi eru kálfaspörkin og verður áhugavert að sjá hvernig Thompson tekst á við þau og hvort þau hægi nógu mikið á honum til að Burns nái honum. Ég held ekki og spá eltingaleik þar sem Burns verður eftirá allan tímann. Thompson tekur þetta á stigum.

Gilbert Burns: ..
Stephen Thompson: Pétur, Óskar, Guttormur, Brynjólfur

Þungavigt: Tai Tuivasa gegn Greg Hardy

Pétur Marinó Jónsson: Ég er ekkert sérstaklega spenntur fyrir þessum bardaga. Greg Hardy hefur alls ekki verið neitt spennandi síðan hann kom úr Contender Series og allt við hann er bara rosalega skrítið. Tuivasa er sennilega einn sá óagaðasti í sportinu og miklu meiri fighter heldur en íþróttamaður. Hardy er aftur á móti alvöru íþróttamaður en eins og Marcin Tybura sýndi í þeirra bardaga gefst hann upp þegar á móti blæs. Tuivasa er skemmtilegur karakter en hef ekki trú á að hann hafi tólin til að meiða Hardy og Hardy jabbar Tuivasa bara í þrjár lotur.

Óskar Örn Árnason: Hér mætast tveir álíka ómerkilegir en útkoman gæti verið skemmtileg. Báðir þessir kappar vilja standa og slá svo rothögg er nokkuð líklegt. Ég hef álíka litla trú á báðum en verð að velja annan. Tek Tuivasa, KO í annarri.

Guttormur Árni Ársælsson: Aldrei séð neitt frá Tui sem heillar mig. En það sama á reyndar við um Hardy, svo kannski eiga þeir hvorn annan skilið. Tui á stigum í daufum bardaga.

Brynjólfur Ingvarsson: Afleitur bardagi að hafa á main card en svona er þetta. Ég held að Hardy sé sá þeirra sem er að bæta sig en Tui reiði sig alfarið á höggþunga. Spái því að Hardy fái að líta vel út og klári snemma í annarri. Hardy KO lota 2.

Tai Tuivasa: Óskar, Guttormur
Greg Hardy: Pétur, Brynjólfur

Bantamvigt kvenna: Irene Aldana gegn Yana Kunitskaya

Pétur Marinó Jónsson: Kunitskaya var einu sinni skemmtileg en í síðustu bardögum hefur hún tekið upp á því að gera eins lítið og hægt er sem er pirrandi. Aldana átti ekki góða frammistöðu síðast og er eflaust staðráðin í að gera betur. Hún skeit hins vegar í vigtuninni í gær og það er áhyggjuefni. Mér finnst hún samt bara vera betri bardagakona en Kunitskaya og tippa á sigur eftir dómaraákvörðun hjá Aldana.

Óskar Örn Árnason: Þetta gæti verið góður tími til að skreppa á kamarinn, a.m.k. ef Kuntiskaya ætlar að halda Aldana standandi upp við búrið eins og hún virðist gera við allar. Ég held vonina í rothögg frá Aldana en spái Kuntiskaya á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Kunitskaya notar cage wrestling og heldur Aldana upp við búrið í þrjár lotur og sigrar á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Það er yfirleitt erfitt að stoppa glímufólk sem er gott að halda öðrum upp við búrið og sérstaklega í þyngdarflokkum þar sem rothögg eru frekar sjaldséð. Kuntiskaya nær sínu fram og sigrar á dómaraákvörðun.

Irene Aldana: Pétur
Yana Kunitskaya: Óskar, Guttormur, Brynjólfur

Bantamvigt: Sean O’Malley gegn Kris Moutinho

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er einn skrítinn bardagi og lítur þetta bara út eins og verið sé að fóðra Sean O’Malley með einhverjum nýliða til að leyfa honum að líta vel út. Það er engin vöntun á mönnum sem vilja mæta Sean O’Malley en UFC velur hér nýliða með 10 daga fyrirvara og það er bara til að hæpa O’Malley. Þetta gæti samt verið skemmtilegt og ég er ekki í nokkrum vafa um að Sean O’Malley muni klára þetta og það bara nokkuð þægilega. O’Malley er drullu góður standandi og klárar þetta með TKO seint í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Maður hefði haldið að einhver með einhvers konar nafn hefði komið sér í þennan bardaga með stuttum fyrirvara á móti Sugar Sean. Við fáum í staðinn einhvern random gæja sem O´Malley á að rota. O´Malley KO 1. lota.

Guttormur Árni Ársælsson: Veðja húsinu á O’Malley í þessum. TKO í 2. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Stuttur fyrirvari og þeir fengu gæja fyrir O’Malley til að sýna hvað hann getur. Þeir vita að allir verða að horfa og eru að reyna að byggja hann upp sem stjörnu. O´Malley KO lota 1.

Sean O’Malley: Pétur, Óskar, Guttormur, Brynjólfur
Kris Moutinho: ..

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular