spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar Nelson: Aldrei séð Santiago berjast

Gunnar Nelson: Aldrei séð Santiago berjast

Gunnar Nelson
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Eins og kom fram í morgun mun Gunnar Nelson mæta Santiago Ponzinibbio í aðalbardaganum í Skotlandi í júlí. Gunnar veit ekki mikið um andstæðing sinn og hefur í raun aldrei séð hann berjast.

Á miðvikudaginn birtum við viðtal við Harald Dean Nelson, föður og umboðsmann Gunnars, þar sem hann svaraði spurningunni hvers vegna Gunnar væri ekki kominn með bardaga. „Af því að UFC hefur ekki boðið neinn bardaga en eru að leita að andstæðingi eftir því sem ég best veit…Það er t.d. stutt í keppnina í Skotlandi, rúmar átta vikur, og því þyrfti að fara að ganga frá þeim bardaga ef hann á að verða að veruleika.“ sagði Haraldur.

Aðeins nokkrum dögum síðar er Gunnar kominn með bardaga. „Þetta kom fljótt upp. Vorum búnir að biðja um að vera á bardagakvöldinu [í Skotlandi], síðan kom þetta bara upp í fyrradag [miðvikudag] minnir mig. Fljótt að gerast. Einn tveir og bingó,“ segir Gunnar um tildrög bardagans.

Gunnar sagði eftir sinn síðasta bardaga að hann vildi hvern sem er á topp 10 listanum en Gunnar er sjálfur í 9. sæti listans. Ponzinibbio er hins vegar nokkrum sætum neðar en Gunnar á listanum (13. sæti) og kannski ekki einhver sem var í augsýn sem næsti andstæðingur. Nokkrir andstæðingar gátu ekki barist eða höfnuðu bardaga gegn Gunnari síðast þegar hann var í leit að andstæðingi en var einhver sem sagði nei núna?

„Ég er ekki með nein nöfn. Það var bara enginn á topp 10 á lausu, menn eru meiddir eða með bardaga. Ég vildi berjast á þessum tíma og þá þurfti ég að fara niður á þessum rankings lista, ekki að það skipti öllu máli fyrir mig. Þetta eru allt hörku strákar.“

Mikið var talað um mögulegan bardaga gegn Stephen Thompson en hann var nýlega í aðgerð og mun ekki vera tilbúinn fyrr en í haust. Er pirrandi að fá ekki bardaga gegn þessum topp andstæðingum?

„Nei nei, það væri örugglega alveg hægt að pirra sig yfir því. En núna er ég með þetta og ég er bara sáttur, aðalbardaginn og þetta verður örugglega hörku bardagi. Þannig að ég er alveg nokkuð sáttur. Ég get ekki mikið kvartað, ekki miðað við Demian Maia allavegna,“ segir Gunnar en Demian Maia ætti að margra mati að vera búinn að fá titilbardaga. Maia mætir Jorge Masvidal á morgun á UFC 211 í Dallas.

Santiago Ponzinibbio er 6-2 í UFC og hefur unnið fjóra síðustu bardaga sína. Hvernig lýst Gunnari á Argentínumanninn? „Ég hef aldrei séð hann berjast. Ég er ekkert búinn að skoða hann, ekkert nema nafnið hans til að reyna að leggja það á minnið. Held ég sé ekki ennþá kominn með það, Ponzonino? Ég veit eginlega ekkert um hann, John [Kavanagh, þjálfari Gunnars] var aðeins búinn kynna mig fyrir honum stuttlega en ekkert meira en það.“

Bardaginn verður aðalbardaginn í Skotlandi þann 16. júlí og er Gunnar spenntur fyrir því. „Mér lýst hrikalega vel á það. Ég átti auðvitað að vera aðalbardaginn þarna í Belfast en það fór aðeins úrskeiðis. Þannig að núna neglum við þetta. Það er bara geðveikt.“

Gunnar átti auðvitað að mæta Dong Hyun Kim í aðalbardaganum í Belfast í nóvember í fyrra en þurfti að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla.

Þetta verður fyrsta heimsókn Gunnars til Skotlands og verður stutt að fara þangað frá Dublin þar sem Gunnar mun klára æfingabúðirnar sínar. „Ég hugsa ég verði hér heima til að byrja með en sennilega enda ég æfingabúðirnar úti í Dublin og fer þaðan til Skotlands. Ég hugsa að það verði eitthvað svoleiðis, bara svipað og síðast. Það er helvíti þægilegt, hrikalega stutt að fara þaðan,“ segir Gunnar að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular