spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar Nelson: Conor klárar Nate í 2. lotu

Gunnar Nelson: Conor klárar Nate í 2. lotu

conor mcgregor Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Conor McGregor mætir Nate Diaz á UFC 196 á laugardaginn. Við heyrðum aðeins í Gunnar Nelson sem gaf okkur sína spá fyrir laugardaginn.

Þeir Gunnar og Conor McGregor hafa æft saman um langt skeið. Kapparnir þekkjast mjög vel og er Gunnar handviss um að McGregor fari með sigur af hólmi á laugardaginn. „Þetta er skemmtilegt matchup að mínu mati. Diaz er helvíti flinkur standandi og gefur ekkert eftir. Diaz er heldur ekkert að fara að leyfa Conor að ógna sér. Hann er ekki að fara þarna inn og gefa Conor of mikið props, hann bara gerir sitt,” segir Gunnar.

„Diaz er faðmlengri og hærri en ég held að Conor sé bara betri bardagamaður. Hann stýrir búrinu betur, er sneggri, með betri fótavinnu og er höggþyngri. Ég held að hann klári þetta í 2. lotu.”

Upphaflega átti McGregor að mæta Rafael dos Anjos um léttvigtarbeltið. Dos Anjos meiddist hins vegar og kom Nate Diaz í hans stað með aðeins 11 daga fyrirvara. „Þetta er eiginlega skemmtilegri bardagi finnst mér. Það er líka mjög skemmtilegt að báðir séu að labba inn án þess að vera að skera niður. Þeir koma inn í rauninni í sinni þyngd sem er mjög skemmtilegt. Ég vona að þetta hafi einhver áhrif á þróunina í þessum málum.”

Conor McGregor er fjaðurvigtarmeistari UFC eftir sigur á Jose Aldo í desember. Bardaginn gegn Diaz fer fram í veltivigt en upphaflega átti McGregor að berjast í léttvigt. Það verður því lítill sem enginn niðurskurður fyrir McGregor í þetta sinn.

Í undirbúningi sínum fyrir léttvigtarbardagann gat McGregor leyft sér að borða mun meira en ef hann væri að berjast í fjaðurvigt. Gunnar æfði með McGregor í Dublin um tveggja vikna skeið í febrúar og segir að það sé aðeins léttara yfir honum þegar Írinn getur leyft sér að borða meira.

„Hann er svipaður og alltaf en jújú, það er aðeins léttara yfir honum á ákveðnum tímum þegar hann veit að hann getur hakkað í sig aðeins meiri mat. En ekkert þannig séð mikill munur. Hann er alltaf flottari á honum skrokkurinn og eðlilegri þegar hann er ekki kominn í köttið. Og svona kött hefur alltaf áhrif, sérstaklega ef bardaginn fer eitthvað lengra en tvær til þrjár lotur. Það hefur áhrif á menn að vera alveg búnir að þurrka sig daginn áður. En ég held reyndar að þetta fari ekki svo langt núna svo það skiptir ekki of miklu máli,” segir Gunnar að lokum.

UFC 196 fer fram á laugardaginn og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Bein útsending frá bardagakvöldinu hefst kl 3.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular