Gunnar Nelson hefur lokið æfingaferð sinni í Mexíkó og er nú kominn til Las Vegas. Þar mun hann dvelja í glæsivillu Conor McGregor fram að bardaganum þann 11. júlí.
Gunnar Nelson hélt til Mexíkó um miðjan maí þar sem hann aðstoðaði æfingafélaga sinn, Cathal Pendred, við undirbúning fyrir bardaga Pendred. Bardagi Pendred fer fram í Mexíkóborg, hátt yfir sjávarmáli, en Pendred hefur dvalið þar til að aðlagast aðstæðum. Pendred berst um helgina á UFC 188 gegn Augusto Montano.
Gunnar hefur nú fært sig yfir til Las Vegas þar sem undirbúningur bardagans heldur áfram. Þar hittir hann Conor McGregor sem hefur dvalið í borginni undanfarna mánuði ásamt fleiri liðsfélögum.
Conor McGregor birti neðangreinda mynd af þeim félögunum í gærkvöldi. Báðir munu berjast á UFC 189 þann 11. júlí – Gunnar mætir John Hathaway og Conor McGregor berst um fjaðurvigtartitilinn gegn Jose Aldo.
Sjá einnig: Glæsivilla Conor McGregor í Las Vegas