Gunnar Nelson stökk upp um fjögur sæti á styrkleikalista UFC eftir sigurinn á Brandon Thatch. Gunnar er nú í 11. sæti styrkleikalista UFC.
UFC raðar keppendum í 15 sæti á eftir meistaranum í hverjum þyngdarflokki fyrir sig. Styrkleikalisti UFC er uppfærður rúmlega 36 klukkustundum eftir hvern viðburð. Listinn er valinn af fjölmiðlafólki sem setur saman sinn lista yfir topp 15 keppendur í hverjum þyngdarflokki fyrir sig. Meistarinn í hverjum flokki er ekki á listanum heldur einfaldlega skráður sem meistari þannig að það má í raun segja að listinn samanstandi af topp 15 áskorendum í hverjum þyngdarflokki.
Fyrir bardagann gegn Thatch var Gunnar í 15. sæti. Eftir UFC 189 hefur hann farið upp fyrir Jake Ellenberger, Thiago Alves, Neil Magny og Kelvin Gastelum.
Stephen Thompson stökk inn á listann og beint í 9. sæti. Þar var Jake Ellenberger, andstæðingur hans í gær. Thompson og Gunnar gætu mæst í Dublin í október.
Þá fór Conor McGregor upp í 1. sæti styrkleikalista fjaðurvigtarinnar. Listann má sjá hér.