spot_img
Sunday, October 6, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar: Sato hamingjusamur í fósturstellingunni að lifa af

Gunnar: Sato hamingjusamur í fósturstellingunni að lifa af

Embed from Getty Images

Gunnar Nelson sigraði Takashi Sato á UFC bardagakvöldinu í London síðastliðið laugardagskvöld. Gunnar sigraði eftir dómaraákvörðun en þetta var fyrsti bardagi hans í rúm tvö ár.

Bardaginn fór fram í O2 Arena í London fyrir framan 17 þúsund áhorfendur. Gunnar átti bardagann frá upphafi til enda og var sigurinn í raun aldrei í hættu.

Þrátt fyrir langa fjarveru leið Gunnari mjög vel í búrinu og fann ekki fyrir miklu ryði. „Mér leið bara mjög vel í búrinu. Fannst ekki eins og ég hafi verið frá allan þennan tíma í rauninni. Hver einasti bardagi er alltaf öðruvísi og alltaf aðeins öðruvísi að koma inn í hvert skipti en ég fann svo sem ekkert ryð eða þannig,“ segir Gunnar.

Gunnar reyndi í fyrstu að „clincha“ mikið við Sato en Sato ýtti sér í burtu í hvert sinn. Sato er með svart belti í júdó og bjóst Gunnar við að þeir myndu verja meiri tíma í standandi glímu í bardaganum.

„Ég hélt hann myndi vera til í að reyna sig aðeins í júdóinu á móti mér en kannski meikar það sense að hann vildi bara vera standandi og ætlaði bara að nota clinchið sitt til að halda þessu standandi. Það hefur örugglega bara verið skynsamt hjá honum. Ég bjóst við að hann myndi vilja vera aðeins lengur í clinchinu.“

Planið hjá Sato var greinilega að halda þessu standandi en þrátt fyrir það náði Sato lítið að ógna með höggum í standandi viðureign.

„John [Kavanagh, þjálfari Gunnars] talaði um að faintin mín hafi tekið hann svolítið úr jafnvægi. Síðan var ég rosa mikið að reyna að fá hann inn. Við æfðum mikið fyrir þennan bardaga counter striking, og hann hefur örugglega bara fundið fyrir því að ég var sneggri en hann með fjarlægðina. Hann var ekki að komast inn og átti erfitt með að komast að mér. Þorði ekki að committa nóg, hann fann svolítið að ég væri að reyna að toga hann inn. Þannig að þetta var pínu staðnað standandi, ég var meira að hoppa inn af og til með hægri höndina mína. Og þá var ég alltaf að bíða eftir að hann myndi countera það, þá gæti ég mögulega tekið hálft skref til baka og tekið counter strike þaðan en hann sló bara voða lítið og var mjög hikandi standandi.“

Embed from Getty Images

Um miðbik 1. lotu skaut Gunnar í fætur Sato og náði sinni fyrstu fellu en Gunnar náði öllum sínum fellum í hvert sinn sem hann skaut í lappirnar.

„Það varð augljóslega málið eftir að ég var búinn að gera það einu sinni. En satt að segja þá langaði mig að fá aðeins meira engagement standandi. Langaði að fá hann til að fara í kast og það kæmi eitthvað counter kast úr því frá mér sem hefði verið flott og skemmtilegt. Hann gaf á sér bakið mjög fljótt þegar við fórum í jörðina og var ástæðan fyrir að þetta æxlaðist svona.“

„Það kom mér á óvart hvað hann var kyrr í gólfinu, að hann hafi ekki reynt meira að koma sér út. Var bara að éta þessi högg því þetta voru ekki laus högg sem hann var að fá í andlitið hálfan bardagann. Hann var bara tilbúinn að éta þau og liggja þarna bíðandi eftir að lotan væri búin. Gott dæmi um að stundum er betra að hafa engar lotur því ef hann vissi að hann yrði þarna þangað til bardaginn væri búinn, þá myndi hann kannski reyna eitthvað meira og opna aðeins leikinn.“

Sato fékk fjölmörg högg í sig í gólfinu og mátti sjá hann vel marinn og bólginn á andliti á hótelinu eftir bardagann. Gunnar berst með eins smáa hanska og hann getur og vefur ekki á sér hendurnar þegar hann berst. Hann setti góðan þunga í höggin í gólfinu og komu litlu hanskarnir þá að góðum notum.

„Ég var að lenda höggum á allri hendinni á mér þegar ég var niðri, nærð ekkert alltaf að beita þér þannig að þú lendir með hnúana þegar þú ert kominn í jörðina, talandi ekki um þegar þú ert fyrir aftan hann. Ég barði hann bara með allri hendinni. Ég er aðeins aumur og marinn í höndinni eftir þetta en ekkert slæmt svo sem.“

„Mér finnst alltaf þægilegra að vera með minni hanska. Þægilegra að glíma með þá og svoleiðis. Erfiðara að grípa í hanskann líka, þeir gera það svolítið mikið, lauma sér inn í hanskann en það verður erfiðara þegar hanskinn er svona lítill. Minna pláss.“

Embed from Getty Images

Gunnar var fljótur að koma sér á bakið á Sato þegar í gólfið var komið og slapp Sato ekki fyrr en lotan hreinlega kláraðist. Gunnar hélt bakinu allan tímann en hefði hann getað komast í „mount“ stöðuna þar sem hann hefði mögulega getað lent þyngri höggum?

„Ég reyndi það einu sinni til tvisvar að snúa honum, annað hvort belly down eða komast í mountið en hann varðist því bara vel. Hann var augljóslega meðvitaður um að hann vildi ekki vera í þeirri stöðu og var bara hamingjusamur í fósturstellingunni að lifa af út lotuna. Ég fékk þarna 15 mínútur í búrinu og ég sé alveg kost í því að hafa fengið þessar 15 mínútur. Hefði verið gaman að klára þetta í endann, ég reyndi nokkurn veginn eins og ég gat og hélt ég myndi ná chokinu en náði því ekki.“

„Ég er búinn að horfa á bardagann aftur. Það er auðvelt að segja eftir á en ég hefði getað reynt að fara í armbarinn, en fannst eins og Sato væri meðvitaður um það og væri ekki að hleypa mér að því nógu vel. Nokkur svona grip fighting tækni sem ég hefði getað reynt meira en eins og alltaf, auðvelt að segja þetta eftir á. Það er bara eitthvað sem maður þarf að æfa betur inn í gymminu svo það verði meira automatískt þegar kemur að því. Hefði getað reynt að pusha meira á armbarinn í lokin.“

Bardagakvöldið var frábært en allir þeir sem kláruðu bardagana sína fengu 50.000 dollara bónus. Vaninn er að aðeins tveir fái bónus fyrir að klára bardaga sinn fyrir flottustu tilþrifin og svo aðrir tveir fyrir besta bardaga kvöldsins. Það var því dálítið svekkjandi að hafa ekki náð að klára bardagann með slíka yfirburði.

Gunnar mun dvelja áfram í London í vikunni þar sem hann mun aðstoða liðsfélaga sinn, Valentin Fels, á Polaris glímukvöldinu næsta laugardag. „Ég verð hérna í London í vikunni. Ég mun koma til með að æfa í vikunni, ekki spurning.“

Gunnar er í mjög góðu standi eftir bardagann og kemur nánast 100% heill úr bardaganum fyrir utan mar á höndinni. En hvenær gætum við fengið að sjá Gunnar næst í búrinu?

„Ég veit það ekki alveg. Skoðum það bara þegar ég kem heim og förum yfir það þá, allavegna ekki eftir tvö og hálft ár.“

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular