0

Halldór Logi og Ómar Yamak með silfur á ACBJJ í Póllandi

Þeir Bjarni Kristjánsson, Halldór Logi Valsson og Ómar Yamak kepptu á ACB European Open Championship Gi glímumótinu í dag í Póllandi. Allir kepptu þeir í brúnbeltingaflokki og hlutu tvenn silfur.

Strákarnir kepptu undir merkjum Mjölnis en þeir Halldór Logi og Bjarni kepptu í -95 kg flokki brúnbeltinga en Ómar í -75 kg flokki brúnbeltinga.

Bjarni Kristjánsson datt út í 8-manna úrslitum eftir tap á stigum. Halldór Logi vann fyrstu tvær glímurnar sínar á stigum og komst í úrslit. Í úrslitum tapaði hann fyrir Euclides Castro frá Brazilian Power Team á stigum.

Ómar Yamak vann fyrstu tvær glímurnar sínar á uppgjafartaki. Þá fyrri tók hann með „crosschoke“ af bakinu og þá seinni með „tarikoplata“. Í úrslitum tapaði hann svo fyrir Kanadamanninum Oliver Teza frá Team Renzo Gracie eftir uppgjafartak. Glæsilegur árangur á sterku móti.

Ómar og Halldór.
Mynd: Bjarni Kristjánsson.

Þeir Ómar og Halldór skráðu sig í opna flokkinn en aðeins þeir sem enduðu á verðlaunapalli gátu skráð sig í opna flokkinn og komst Bjarni því ekki í opna flokkinn. Óhætt er að segja að strákarnir hafi fengið sterka andstæðinga í opna flokkinum.

Halldór fékk Matheus Xavier í fyrstu umferð og tapaði á stigum en Xavier tók silfur í þungavigt (+95 kg) á mótinu. Ómar fékk svo Euclides Castro sem sigraði Halldór Loga í úrslitum í -95 kg flokki en Castro sigraði Ómar með uppgjafartaki.

Strákarnir fengu ekki bara verðlaunapening heldur fengu þeir einnig 600 dollara (um 60.000 ISK) hvor.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.