Jake Ellenberger hefur ekki vegnað neitt sérstaklega vel í síðustu bardögum. Þegar bardagaferill hans er skoðaður mætti halda að UFC sé í nöp við hann.
Jake Ellenbergar var eitt sinn á topp fimm í UFC og ekki langt frá titilbardaga. Í dag hefur hann hins vegar tapað fimm af síðustu sex bardögum sínum og virðist einungis vera skugginn af sjálfum sér.
Þrátt fyrir hvert tapið á eftir öðru fær hann alltaf mjög sterka andstæðinga. Töpin fimm hafa nefnilega komið gegn stórhættulegum og erfiðum andstæðingum.
Eftir að hafa rotað Nate Marquardt með þungum höggum mætti hann Rory MacDonald í júlí 2013. Bardaginn var tíðindalítill og átti Ellenberger erfitt með að finna taktinn í bardaganum. Næst á eftir mætti hann Robbie Lawler og var hann rotaður í 3. lotu.
Eftir tapið gegn Lawler fékk hann Kelvin Gastelum í Mexíkó og mátti sætta sig við tap í 1. lotu eftir hengingu. Eftir þrjú töp í röð tókst honum loksins að vinna bardaga þegar hann kláraði gamla brýnið Josh Koscheck með hengingu í 2. lotu. Svo sem ekki merkilegur sigur á pappírum enda var þetta fjórða tap Koscheck í röð og var samningi hans við UFC í kjölfairð rift.
Eftir sigurinn á Koscheck mætti hann Stephen Thompson í aðalbardaga kvöldsins á TUF 21 Finale. Ellenberger tókst að kýla Thompson niður og átti ágætis gengi að fagna í 1. lotu. Í 2. lotu fékk hann tvívegis snúnings hælspark í höfuðið frá hinum hættulega Thompson og mátti sætti sig við enn eitt tapið.
Síðast sáum við hann tapa fyrir Tarec Saffiedine í janúar eftir dómaraákvörðun. Núna, þegar Ellenberger er 1-5 í síðustu sex bardögum, mun hann mæta sjálfum Matt Brown á UFC 201. Matt Brown er sennilega einn óþægilegasti bardagamaður sem þú getur mætt í veltivigtinni.
Í 99% tilvika myndi UFC láta bardagamann sem hefur tapað fimm af síðustu sex bardögum sínum fara. Talið var að UFC hefði sagt upp samningi Ellenberger eftir tapið í janúar en nú ljóst að svo var ekki.
Af hverju er Ellenberger alltaf að fá svona ótrúlega erfiða bardaga þrátt fyrir að tapa og tapa? Og hvers vegna er hann ennþá í UFC? Hatar UFC Jake Ellenberger og er að reyna að refsa honum fyrir eitthvað með því að gefa honum eins erfiða bardaga og mögulegt er? Ellenberger er annað hvort með mjög góðan umboðsmann (sem útvegar honum stóra bardaga) eða mjög slæman umboðsmann (sem útvegar honum fáranlega erfiða bardaga).
Nú er Ellenberger löngu dottinn út af topp 15 listanum en fær ennþá stóra bardaga gegn hættulegum andstæðingum. Ellenberger hlýtur að hafa mikla trú á eigin getu og trúir því eflaust að hann geti snúið við blaðinu. Það eru engir auðveldir bardagar í UFC og þá sérstaklega í veltivigtinni en gæti UFC ekki gefið honum kannski einn aðeins auðveldari andstæðing og kannski einhvern sem er ekki með 12 sigra eftir rothögg?