spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHM 2017: Björn Lúkas aðeins verið í búrinu í rúmar sjö mínútur

HM 2017: Björn Lúkas aðeins verið í búrinu í rúmar sjö mínútur

Björn Lúkas Haraldsson er kominn í úrslit á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA. Björn Lúkas mætir Svía sem hefur aðeins barist tvo bardaga á mótinu.

Björn Lúkas Haraldsson (6-0) hefur farið hamförum á mótinu og klárað fjóra bardaga á fjórum dögum – alla í fyrstu lotu. Í dag sigraði hann Joseph Luciano frá Ástralíu í undanúrslitum og er bara einn bardagi eftir til að taka gullið.

Björn Lúkas hefur verið eldsnöggur að klára bardaga sína og hefur aðeins verið samtals 7:36 mínútur í búrinu á mótinu. Hver bardagi er samtals níu mínútur (fari bardaginn allar loturnar þrjár) og hefur hann því verið skemur en einn bardagi í bardögum sínum fjórum.

Andstæðingur hans á laugardaginn, Svíinn Khaled Laallam (11-1), hefur aðeins þurft að berjast tvo bardaga á mótinu. 29 manns hófu leik í millivigtinni en 32 pláss voru í boði. Það voru því þrír bardagamenn sem fengu að sitja hjá í fyrstu umferð og var Laallam einn af þeim.

Hann sigraði Rusi Minev frá Búlgaríu í 16-manna úrslitum eftir dómaraákvörðun og átti að mæta Andy Stanway í 8-manna úrslitum í gær. Stanway stóðst hins vegar ekki læknisskoðun og fékk ekki að keppa. Laallam þurfti því ekki að berjast í gær.

Í dag mætti hann svo Christian Leroy Duncan og fór sá sænski með sigur af hólmi eftir dómaraákvörðun. Laallam hefur því verið samtals 18 mínútur í búrinu í tveimur bardögum.

Laallam er nokkuð reyndur og er með 12 bardaga að baki í MMA. Svíarnir hafa verið ansi sigursælir á þessum alþjóðlegu mótum IMMAF (alþjóðlega MMA sambandið) enda er baklandið þar öflugt. Svíþjóð heldur úrtökumót fyrir mótin þar sem barist er upp á að fá sæti í liðinu. Laallam er ekki ókunnugur þessum mótum en hann hafnaði í 2. sæti á Evrópumeistaramótinu fyrr á þessu ári.

Á morgun, föstudag, verður gert hlé á mótinu áður en úrslitin fara svo fram á laugardaginn. Þá verður afar spennandi að sjá hvort Björn Lúkas tryggi sér heimsmeistaratitilinn í millivigt.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular