Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaHver er þessi Dong Hyun Kim?

Hver er þessi Dong Hyun Kim?

Dong Hyun Kim

Eins og við greindum frá í morgun er Dong Hyun Kim næsti andstæðingur Gunnars Nelson. Kapparnir mætast í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Belfast þann 19. nóvember.

Dong Hyun Kim er 34 ára bardagamaður frá Suður-Kóreu. Hann hefur barist 16 bardaga í UFC á átta árum og er sem stendur í 10. sæti styrkleikalista UFC í veltivigtinni.

Dong Hyun Kim byrjaði 14 ára gamall í tækvondó og hapkido en síðar byrjaði hann í júdó. Áhugi hans á júdó var mikill en hann er 4. gráðu svartbeltingur í júdó.

Kim er enginn venjulegur svartbeltingur í júdó og var til að mynda í háskólanum Yong-In þar sem hann lærði júdó.

Kim skipti síðar yfir í MMA þar sem honum hefur gengið mjög vel. Af 21 sigrum hans hafa níu komið eftir rothögg en fimm af þessum rothöggum komu utan UFC. Í UFC hefur hann barist gegn mörgum sterkum andstæðingum og sigraði til að mynda Nate Diaz árið 2011.

Flestir sigrar Kim í UFC hafa komið eftir dómaraákvörðun. Hann þótti fremur óspennandi bardagamaður þar til hann fór að rota menn og taka miklar áhættur. Sigur hans á John Hathaway (sem Gunnar átti eitt sinn að mæta) með snúandi olnboga var eitt besta rothögg ársins 2014.

Dong-Hyun-Kim-Spinning-Back-Elbow-KO-John-Hathaway-UFN-37a

Síðustu fjórir sigrar Kim hafa komið eftir rothögg eða uppgjafartak og hefur hann aldrei verið betri en núna. Hann hefur sigrað sex af síðustu sjö bardögum sínum og hafa einu þrjú töpin hans öll komið gegn sterkum andstæðingum.

Hans fyrsta tap kom gegn Carlos Condit sem rotaði hann með fljúgandi hnésparki í 1. lotu. Ári síðar mætti hann Demian Maia og fékk hann sitt annað tap á ferlinum en óhætt er að segja að tapið hafi komið með óvenjulegum hætti. Strax á fyrstu mínútu bardagans fór Maia í fellu og er Kim reyndi að verjast fellunni fékk hann vöðvakrampa og gat ekki haldið áfram. Óvenjulegur endir á bardaganum og hefur Kim reynt að fá annan bardaga gegn Maia án árangurs.

Þriðja tapið hans Kim kom gegn nýja veltivigtarmeistaranum Tyron Woodley árið 2014. Áhættan sem Kim var þá mikið að taka borgaði sig ekki. Eftir snúningsolnboga frá Kim sem hitti ekki smellhitti Woodley í höfuð Kim og rotaði hann.

Síðan þá hefur Kim sigraði tvo bardaga – fyrst þegar hann kláraði Josh Burkman með hengingu í 3. lotu og svo þegar hann kláraði Dominic Waters með tæknilegu rothöggi.

Það ber þó að nefna að Dong Hyun Kim tapaði fyrir Karo Parisyan árið 2009 og hefði það verið hans fyrsta tap á ferlinum ef Parisyan hefði ekki fallið á lyfjaprófi.

Dong Hyun Kim er afar fær glímumaður og stór þar að auki. Hann er með kæfandi glímustíl og er hann eflaust óhræddur við að taka Gunnar niður og glíma aðeins við hann. Hann er afar sterkur í að halda andstæðingum niðri án þess þó að gera oft mikinn skaða. Sjálfur er hann aðeins með tvo sigra eftir uppgjafartök en hefur aldrei tapað eftir uppgjafartak. Kim er svart belti í brasilísku jiu-jitsu og júdó.

Kim er sjálfur með afskaplega góða felluvörn en hann hefur varist 82% fellna andstæðinga sinna í UFC en sjálfur náð um helming sinna fellna. Hann er 186 cm á hæð og með 193 cm faðmlengd. Til samanburðar er Gunnar 180 cm á hæð og með 183 cm faðmlengd.

Standandi er Kim eilítið villtur þessa dagana og hefur verið hættulegur á undanförnum árum. Hann er með góða beina vinstri úr örvhentri stöðu og sparkar ágætlega mikið með löngu löppunum sínum. Spörkin og þessa beinu vinstri notar hann til að pressa andstæðinginn að búrinu þar sem hann hendir stundum í snúandi olnboga. Aftur á móti getur hann verið opinn fyrir höggum sjálfur. „Clinchið“ er samt hans sterkasta hlið og það er gífurlega erfitt að hrista hann af sér upp við búrið.

Meiðsli hafa sett strik í reikninginn á ferli Kim í UFC. Fjórum sinnum hefur hann þurft að draga sig úr bardaga vegna meiðsla. Kim átti að mæta Neil Magny á UFC 202 nú í ágúst en dró sig úr bardaganum vegna meiðsla um miðjan júlí. Hann hefur greinilega jafnað sig á meiðslunum en vonandi mun hann haldast heill fram að bardaganum.

Þetta verður gríðarlega áhugaverður bardagi og stutt að fara fyrir Íslendinga. Dong Hyun Kim er afar vinsæll í Asíu og þurfa aðdáendur hans að fara aðeins lengri leið en aðdáendur Gunnars. Kim er einn af bestu asísku bardagamönnunum í dag og mun sigur hjá Gunnari gegn honum koma honum enn lengra upp styrkleikalistann. Núna er Gunnar á þeim stað á ferlinum að allir hans andstæðingar eru virkilega hættulegir.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular