Eins og við greindum frá í gær mun Ovince Saint Preux koma í stað Daniel Cormier og mætir Jon Jones á UFC 197. En hver er þessi Ovince Saint Preux.
Hinn 32 ára Ovince Saint Preux, eða OSP eins og hann er stundum kallaður, er fæddur í Miami, Flórída en foreldrar hans voru innflytjendur frá Haíti. Hann var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum og keppti í hindrunarhlaupi, ólympískri glímu, kringlukasti og amerískum ruðningi svo fátt eitt sé nefnt.
Ruðningurinn átti hug hans og hjarta framan af en eftir menntaskólann reyndi hann að komast í atvinnumennskuna. Eftir tvær misheppnaðar tilraunir gaf hann drauminn upp á bátinn og hóf að æfa bardagaíþróttir til að halda sér í formi.
Fljótlega kom í ljós að bardagaíþróttirnar áttu afar vel við Saint Preux. Eftir að hafa sigrað fyrstu fimm áhugamannabardagana sína tók hann stökkið í atvinnumennskuna. Þar gekk honum ekkert alltof vel til að byrja með og var hann með þrjá sigra og fjögur töp eftir fyrstu sjö bardaga sína.
Saint Preux tókst þó að snúa taflinu við og sigraði hann næstu 13 af 14 bardögum sínum. Hann átti góðu gengi að fagna í Strikeforce og sigraði þar alla bardaga sína nema einn. Eina tapið kom gegn Gegard Mousasi sem er fyrrum léttþungavigtarmeistari Strikeforce.
Eftir að Strikeforce sameinaðist UFC var hann einn af þeim sem fór yfir til UFC. Í UFC hefur hann sigrað sjö bardaga og tapað tveimur. Bæði töpin komu gegn topp fimm andstæðingum, Ryan Bader og Glover Teixeira, og virðist hann ekki geta sigrað þessa topp bardagamenn í flokknum. Það er því fátt sem bendir til að hann eigi mikla möguleika gegn Jon Jones.
Það er þó eitt sem gæti unnið með Saint Preux og það er stærðin og faðmlengdin. Maðurinn er 191 cm á hæð og með 203 cm faðmlengd. Hann er lægri en til að mynda Alexander Gustafsson en með talsvert lengri faðm. Jones hefur aldrei mætt neinum með jafn langan faðm og Saint Preux hefur. Jones hefur þrátt fyrir það talsvert lengri faðm eða 215 cm langan.
Saint Preux er ekkert tæknilegt undur og hefur komist svo langt að hluta til vegna þess hve góður íþróttamaður hann er. Hann notar lengdina sína og hraðann vel og heldur andstæðingnum vel frá sér með höggum og spörkum. Hann skarar fram úr í gagnhöggunum enda þurfa andstæðingar hans oft að fara langa vegalengd til að komast að honum. Þá er hann einnig nokkuð höggþungur og með góða tímasetningu eins og þegar hann rotaði Shogun Rua hér um árið.
Saint Preux er ágætis glímumaður en treystir kannski fullmikið á hve góður íþróttamaður hann er í stað þess að glíma tæknilega. Þá er þolið hans kannski ekki það besta.
Saint Preux er með fimm sigra eftir uppgjafartök og er einn af tveimur bardagamönnum sem klárað hefur bardaga með Von Flue hengingunni í UFC.
Það er óhætt að segja að Saint Preux eigi ekki mikla möguleika gegn Jon Jones. Í rauninni eru afskaplega fáir sem eiga möguleika gegn Jon Jones enda einn besti bardagamaður sögunnar að margra mati. Saint Preux á ekki mikið meira en „punchers chance“ gegn Jones en eins og við höfum svo oft séð áður getur allt gerst í MMA.
UFC 197 fer fram þann 23. apríl og munu þeir Ovince Saint Preux og Jon Jones berjast um bráðabirgðartitilinn í aðalbardaga kvöldsins. Fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson ver titil sinn gegn Henry Cejudo sama kvöld.