Bjarki Thor Pálsson mætir Alan Procter í kvöld á FightStar 9 bardagakvöldinu í London. Bjarki mun ganga í búrið í kvöld undir íslenskum tónum.
Bjarki Thor mætir Alan Procter í kvöld á FightStar 9 bardagakvöldinu í London í kvöld. Þetta er þriðji atvinnubardagi Bjarka og kemur hann gríðarlega vel undirbúinn til leiks.
Bjarki mun ganga í búrið undir laginu „Fjöllin hafa vakað“ með Egó. Bjarki sendi Bubba Morthens skilaboð um heimild til þess að nota lagið og var Bubbi ekki lengi að svara: „Minn er heiðurinn“.
Ástæðan fyrir lagavalinu er einföld. „Þetta er eitt besta lag íslenskrar rokksögu og lag sem peppar mig hrikalega vel. Ég þekki engan sem fílar ekki Fjöllin hafa vakað og var strax viss um að þetta væri lagið sem ég vildi þegar hugmyndin kom upp,“ segir Bjarki um lagavalið.
Bardagi Bjarka og Procter er aðalbardaginn á FightStar 9 bardagakvöldinu í London í kvöld. Hægt er að kaupa löglegt streymi á bardagana hér og kostar 6,99 pund (811 kr). Einnig verða bardagarnir sýndir á Drukkstofu Óðins í Mjölni.