Þrír Íslendingar verða í eldlínunni á laugardaginn á Shinobi War 7 bardagakvöldinu í Liverpool. Þeir Bjarki Ómarsson, Egill Øydvin Hjördísarson og Hrólfur Ólafsson eru auðvitað allir með sín inngöngulög og fengum við að forvitnast aðeins um val þeirra.
Það ríkir jafnan hefð fyrir því að bardagamenn velji lag sem spilast undir á meðan þeir ganga í búrið. Gunnar Nelson er auðvitað þekktur fyrir að ganga í búrið undir tónum Hjálma en hvaða lög ætla strákarnir að nota á laugardaginn?
Sjá einnig: Leiðin að búrinu – Shinobi War 7
Hrólfur ætlar að ganga til leiks við lagið Dánarfregnir og jarðarfarir með Sigur Rós. „Mér finnst rosa flott að hafa íslenskt lag og þegar ég hlustaði á þetta lag ímyndaði ég mér að ég væri að labba í búrið. Ég fékk gæsahúð og ákvað því að nota þetta lag.“
Bjarki Ómarsson velur lagið New Level með A$AP Ferg. „Ég ákvað að velja þetta lag þar sem mér finnst ég vera kominn á nýtt level.“
Egill lagði ekki mikla vinnu í leit að sínu lagi. Hann velur lagið 1, 2 Hit Em með Randam Luck. „Það er svo sem engin sérstök ástæða fyrir valinu. Fannst þetta bara kúl lag. Þurfti að velja eitthvað lag og ég var að hlusta á þetta þegar ég þurfti að velja.“