Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaInnrás Rússa í UFC og lykillinn að velgengni þeirra

Innrás Rússa í UFC og lykillinn að velgengni þeirra

samboGunnar Nelson mætir Rússanum Omari Akhmedov þann 8. mars næstkomandi. Aðdáendur UFC hafa eflaust tekið eftir innrás Rússa í UFC á undanförnu ári. Flestum Rússunum í UFC hefur gengið gríðarlega vel en af hverju eru þeir svona sigursælir?

Þeir Khabib Nurmagomedov, Rustam Khabilov, Omari Akhmedov, Adlan Amagov og Ali Bagautinov eru allt rússneskir bardagamenn og eru allir enn ósigraðir í UFC. Fleiri Rússneskir bardagamenn hafa samið við UFC nýlega en þessir fimm standa upp úr. Allir koma þeir frá Dagestan héraðinu í Rússlandi en nánar má lesa um þá hér.

Allir þessir kappar eiga það sameiginlegt að hafa æft sambó, Combat Sambo og frjálsa glímu (e. freestyle wrestling). Það eru mörg atriði sem benda til þess að sambó sé einn besti bakgrunnurinn til að hafa áður en farið er í MMA. Allir MMA kappar sem hafa æft sambó hafa einnig keppt í Combat Sambo en þar má kýla, sparka og hengja og er því ágætlega líkt MMA.

Í sambó má kasta eins og í júdó og sækja fellur í lappir þannig að þeir eru öllu vanir þegar kemur að þeim sóknum og vörnum. Að auki hafa flestir sambó keppendur einnig æft glímu og eru því vel að sér þegar kemur að fellutilraunum í lappir eins og t.d. “double leg” og “fireman carry”. “Clinchið” í Combat Sambo er mjög líkt og í MMA. Þar má kýla, kasta og nota hnéspörk og því eru keppendur mjög þétt að hvor öðrum til að forðast hnéspörk, líkt og í MMA.

Sambó er kannski ekki eins tæknilegt og BJJ og hafa sambó keppendur margir hverjir lent í vandræðum þegar kemur að því að losna úr t.d. “mount” stöðunni. Aftur á móti má kýla í gólfinu í Combat Sambo og því eru þeir alltaf með það hugfast þegar þeir framkvæma tækni í gólfinu, annað en t.d. í hefðbundnu BJJ. Í sambó er vopnabúrið þegar kemur að köstum mjög vítt. Reglurnar eru ekki eins takmarkaðar eins og í júdó og Grísk-Rómverskri glímu.

Þessir Rússar hafa keppt ótal bardaga í Combat Sambo og hafa því mikla reynslu þegar kemur að því að glíma og nota högg og spörk á sama tíma. Þessi innanlandsmót í Combat Sambo líkjast áhugamanna MMA bardögum og er það dýrmæt reynsla fyrir þessa kappa. Þegar þeir byrja MMA ferilinn sinn eru þeir gríðarlega reynslumiklir þegar kemur að bardaga án þess vera með mörg skráð töp. Það gæti spilað inn í af hverju margir af þeim eru með flott bardagaskor eins og t.d. Khabib Nurmagomedov, 21-0; þeir eru að koma inn í MMA nánast fullmótaðir bardagamenn með mikla reynslu.

Eitt af því sem flestir sambó iðkendur í MMA eiga sameiginlegt er að þeir eru snöggir að skipta milli varnar og sóknar í leik sínum og eru góðir í gagnárásum. Þeir eru ekki lengi að hugsa um að verjast og svo sækja heldur gera þeir gagnárásir á árásir andstæðinganna örsnöggt, líkt og Fedor Emelianenko var þekktur fyrir. Þegar menn vöðuðu í hann var hann snöggur að “clincha” við andstæðinga sína og koma þeim í gólfið áður en þeir vissu hvað væri að gerast.

Þessir Rússar sem við erum að sjá í UFC eru margir hverjir frústreraðir glímumenn sem voru ekki nógu góðir til að komast í glímulandsliðið. Rússneska glímulandsliðið er eitt það sterkasta í heimi og gríðarlega eftirsóknarvert að komast þangað, enda mikið fjárhagslegt öryggi sem fylgir því að komast þangað. Þessir bardagamenn æfa glímu, júdó og sambó sem krakkar þó mesta áherslan sé oft á glímuna. Þegar menn sjá fram á að ná ekki að komast alla leið í glímunni snúa þeir sér að sambó eða Combat Sambo í von um að skara fram úr þar. Af því leiðir eru margir frábærir íþróttamenn í Combat Sambo sem voru einfaldlega ekki alveg nógu góðir til að komast alla leið í glímunni en eru engu að síður með frábæran glímubakgrunn.

Fedor_Emelianenko_in_a_seminar_in_New_Jersey,_mid_2006 (1)
Fedor Emelianenko.

Fyrir marga er sambó eða glíman leið úr fátæktinni í Rússlandi. Fedor Emelianenko, einn besti MMA kappi allra tíma, sagði þessi fleygu orð í viðtali: “When I see my opponent, I think that this man is trying to take food off my table and I will stop him from taking food off my table”. Þetta hugarfar einkennir Rússana en þeir eru ótrúlega þrautsegir og gefast aldrei upp. Þetta kom bersýnilega í ljós í bardaga Omari Akhmedov gegn Thiago Perpétuo þar sem Akhmedov var tvisvar kýldur niður en náði samt að halda áfram og sigraði að lokum eftir rothögg.

Sífellt er minnst á að Rory MacDonald og Micheal McDonald (ekki skyldir) hafi æft MMA frá 14 ára aldri og það sé dæmigert fyrir hina nýju kynslóð MMA keppenda. Kynslóð sem kemur ekki úr neinum ákveðnum bakgrunni eins og úr glímu eða sparkboxi heldur æfir bara MMA. Það sama má segja um þessa Combat Sambo kappa, þeir hafa æft frá unga aldri og eru vanir því að berjast við jafnaldra sína með höggum, spörkum og fellum.

Allir þessir kappar koma frá Dagestan eða öðrum héröðum í Norður-Kákasus svæðinu. Þar er gríðarlega sterk hefð fyrir bardagaíþróttum og fer nánast hvert einasta mannsbarn í glímu, sambó, júdó, sparkbox eða box. Það má því segja að helsta ástæða fyrir velgengni þeirra í MMA sé sú að þeir æfa högg, spörk og glímu frá unga aldri og eru því öllu vanir þegar þeir taka skrefið í MMA. Hvort að það sé nóg fyrir Omari Akhmedov til að sigra Gunnar Nelson verður að koma í ljós þann 8. mars en bardaginn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Most Popular