15 Íslendingar tóku þátt á Copenhagen Open mótinu sem fram fór í dag í brasilísku jiu-jitsu en keppt var í galla (gi). Árangurinn lét ekki á sér standa en Íslendingar hrepptu 10 verðlaun.
Þráinn Kolbeinsson úr Mjölni hlaut brons bæði í sínum þyngdarflokki og opnum flokki brúnbeltinga. Ómar Yamak sigraði sinn þyngdarflokk (-70 kg) í flokki fjólublábeltinga og Pétur Jónasson sigraði opinn flokk fjólublábeltinga en þeir keppa báðir undir merkjum Mjölnis. Daði Steinn Brynjarsson úr VBC og Halldór Logi Valson úr Fenri hrepptu báðir verðlaun í sínum flokkum en þeir kepptu í flokki fjólublábeltinga. Daði Steinn hlaut bronsverðlaun og Halldór Logi silfur.
Brynjar Örn Ellertsson sigraði +100 kg flokk blábeltinga og hlaut bronsverðlaun í opnum flokki blábeltinga. Inga Birna Ársælsdóttir hlaut bronsverðlaun í -64 kg flokki blábeltinga en þau koma bæði frá Mjölni. Þá hlaut Ari Páll Samúelsson úr VBC silfurverðlaun í flokki blábeltinga.
Á morgun fer fram nogi hluti mótsins og verða Íslendingarnir í eldlínunni þar. Einnig er keppni hvítbeltinga í galla á morgun og eru nokkrir keppendur þar frá Íslandi. Góður dagur að baki hjá íslensku keppendunum og vonandi halda þau sigurgöngu sinni áfram á morgun.
Samantekt frá deginum í dag.