John Kavanagh fór fögrum orðum um nýtt æfingahúsnæði Mjölnis. Mjölnir hélt sérstaka opnunarhátíð í gær og ræddum við við John um nýju aðstöðuna og bardaga Gunnars og Alan Jouban.
John Kavanagh stýrði æfingu Keppnisliðs Mjölnis í gær á opnunarhátíðinni. John hefur margoft komið hingað til lands en hann kom fyrst hingað til lands fyrir meira en áratug síðan. John segist aldrei hafa séð aðra eins æfingaaðstöðu eins og Mjölnir býr yfir núna.
Gunnar Nelson mætir Alan Jouban á UFC bardagakvöldinu í London þann 18. mars og er John ánægður með bardagann. „Þetta er flottur bardagi, hefðum viljað fá topp 10 gæja. Auðvitað mikil vonbrigði með síðasta bardaga [Dong Hyun Kim] en Gunni er ekki mikið fyrir að sitja og bíða,“ segir John um bardagann.
„Það er mikið um að vera í veltivigtinni og flestir af topp 10 gæjunum bókaðir eða meiddir þannig að við gátum ekki fengið einhvern á listanum. En til að halda okkur við efnið mætum við hættulegum örvhentum sparkboxara. Hann er á þriggja bardaga sigurgöngu, mjög myndarlegur maður að auki, hann er fyrirsæta. En þetta er gott tækifæri fyrir Gunna að berjast fyrir framan aðdáendur sína, þetta er bara í London. Hann er hálf-írskur á þessu stigi, mikill fjöldi fólks á eftir að koma frá Dublin, mikill fjöldi frá Íslandi. Þetta verður flott bardagakvöld og annar flottur sigur fyrir ísvíkinginn.“