Friday, June 21, 2024
spot_img
HomeInnlentJohn Kavanagh: Hamingjusamur Gunnar er mjög hættulegur

John Kavanagh: Hamingjusamur Gunnar er mjög hættulegur

Mynd: Snorri Björns.

Gunnar Nelson mætir Bryan Barberena á laugardagskvöldið á UFC 286. John Kavanagh er gríðarlega ánægður með standið á Gunnari.

Gunnar æfði fyrir bardagann að mestu heima á Íslandi en fór til SBG í Dublin í rúmar tvær vikur þar sem hann æfði hjá þjálfara sínum, John Kavanagh. Gunnar hafði ekki farið til Dublin við æfingar frá því síðast er hann undirbjó sig fyrir bardaga og var gaman fyrir Kavanagh að sjá Gunnar aftur á dýnunum hjá sér.

„Það var frábært að fá hann til Dublin því veltivigtarmeistari Bellator, Yaroslav Amasov, var að klára sínar æfingabúðir hjá okkur á sama tíma. Þeir smullu vel saman, náðu góðum æfingum saman sem var mjög gott fyrir þá báða. Gunni var hrifinn af hugarfari Amasov og Amasov var sama sinnis. Það er alltaf erfitt að mæla bætingar hjá Gunna því hann er svo mikið betri en allir á dýnunum, en með Amasov þá náðu þeir mjög góðum æfingum saman sem var gaman að sjá,“ sagði John við MMA Fréttir.

„Á þessum skamma tíma fannst mér Gunni taka stökk uppávið og hann náði að kveikja á bardagaheilanum því það er ár síðan hann barðist síðast. Fjarveran frá keppni hefur svo sem aldrei haft mikil áhrif á frammistöðu Gunna í búrinu, hann kemur alltaf með frammistöðu þrátt fyrir fjarveru. En að kveikja á rofanum að fara frá þjálfun í Mjölni og yfir í að eiga mjög erfiðar lotur gegn Bellator meistara mun sýna sig í búrinu annað kvöld.“

Andstæðingur Gunnars er Bryan ‘Bam Bam’ Barberena sem hefur verið í UFC frá 2014. Barberena hefur barist við marga góða bardagamenn og býst Kavanagh við góðum bardaga.

„Barberena er góður að standa aftur upp. Gunni hefur einbeitt sér mikið að því að ná fellunni en þarf að vera andlega og líkamlega tilbúinn að gera það nokkrum sinnum í bardaganum. Bam Bam er mjög harður, villtur og hættulegur en ég veit að Gunni er í frábæru formi. Þó þetta verði ekki þetta klassíska, ein fella, henging og búið, þá tel ég að Gunni geti klárað þetta í 2. eða 3. lotu þó hann þurfi að taka hann nokkrum sinnum niður.“

Gunnar hefur á undanförnum árum verið í styrktar- og þrekþjálfun hjá Unnari Helgasyni. Unnar talaði um í fyrsta þætti The Grind að Gunnar þurfi að treysta þolinu sínu og keyra upp meiri hraða í bardögum sínum. Kavanagh er sammála því og er vinna síðustu ára að skila sér í búrinu.

„Unnar hefur gert frábærlega með Gunnar á síðustu árum. Gunnar var mikið að spá í tæknilegu hliðinni á fyrstu árunum en hefur á síðustu árum byggt upp mikinn styrk og þol sem gefur honum trú á að hann geti farið á fullu gasi allan tímann. Eftir að hafa séð hann í Dublin hef ég mikla trú á að vélin verði til staðar.“

Kavanagh hefur verið á miklu ferðalagi á síðustu dögum. Hann var í Las Vegas í nokkrar vikur ásamt Conor McGregor við þjálfun á The Ultimate Fighter raunveruleikaþættinum. Á miðvikudaginn var hann svo í Denver þar sem Danni McCormack tryggði sér strávigtartitil Invicta. Þetta hefur því verið stór vika hjá Kavanagh og SBG og vonast hann eftir þriðja sigrinum um helgina.

„Ég get ekki farið í smáatriði en ég var með bardagamann í mjög stórum bardaga í Las Vegas á mánudaginn þegar við vorum í tökum á The Ultimate Fighter. Mánudagur í The Ultimate Fighter, miðvikudagur í Invicta og svo laugardagur UFC, þrír stórir bardagar á einni viku, ég man ekki eftir að hafa upplifað það áður. Gunni þekkir Danni vel og Danni hefur æft á Íslandi, alltaf gott að koma inn í svona bardaga með augnablikið með sér sem þjálfari. Við tökum öll litlu smáatriðinu með til að hjálpa til við að ná sigri á laugardaginn.“

Gunnar verður 35 ára gamall í sumar og velta margir fyrir sér hversu lengi hann mun halda áfram að berjast. „Stóra spurningin er hve lengi vill hann halda áfram. Gunni þarf að svara því. Ég veit að þetta er klisja en miðað við það sem ég sá á dögunum í Dublin þá held ég að þetta sé besti Gunni sem við höfum séð. Hlutir utan búrsins eru að ganga frábærlega núna, hann er á mjög góðum stað andlega og það er mun mikilvægara en líkamlegi þátturinn. Eins og Mike Tyson orðaði það, „a happy fighter is a dangerous fighter“ og hann virðist vera á mjög góðum stað núna, mjög hamingjusamur og þá er hann mjög hættulegur.“

Líkt og vanalega fáum við spá Kavanagh fyrir bardagann og er hann ekki í nokkrum vafa um að Gunnar muni klára þetta. „Ég held í alvörunni að þetta verði annar sigur í 1. lotu. En ég veit að andstæðingurinn er erfiður og árásargjarn og hann hefur getuna til að koma sér úr slæmum stöðum svo þetta gæti farið í 2. lotu þar sem Gunni klárar með ‘rear naked choke’ eftir tvær mínútur og 48 sekúndur,“ sagði John og hló hátt.

UFC 286 fer fram á laugardaginn og verður í beinni á Viaplay.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular