Wednesday, May 8, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 286

Spá MMA Frétta fyrir UFC 286

UFC 286 fer fram í kvöld þar sem Gunnar Nelson mætir Bryan Barberena. Hér birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Veltivigt: Gunnar Nelson vs. Bryan Barberena

Pétur Marinó Jónsson: Þá er bara komið að þessu! Ég er (eins og alltaf) skítstressaður. Ég hef auðvitað mikla trú á okkar manni en veit að Barberena er með fullt af tólum sem geta gert skaða og ógnað okkar manni. Barberena ætlar pottþétt að byrja af krafti og byrja snemma að negla í lappirnar á Gunna. Gunni má ekki taka of mörg þannig og þarf að loka fjarlægðinni – annað hvort að vera alla leið úti eða alla leið inni því Barberena er mjög hættulegur í vasanum. Barberena elskar að skiptast á höggum í vasanum og þar er hann betri en Gunni. Við viljum ekki sjá Gunna þar. Bara alls ekki. Barberena er oft tekinn niður en segist hafa unnið rosalega mikið í felluvörninni síðustu 6 mánuði. Hversu mikið er hægt að bæta sig á hálfu ári? Það á eftir að koma í ljós en á pappírum á Gunni að taka hann niður. Þó Barberena sé oft tekinn niður er hann góður að standa upp, þar mun Gunni þurfa að nota öll sín bestu tól til að halda Barberena niðri og líka vera tilbúinn að þurfa að taka hann nokkrum sinnum niður til að halda honum loksins niðri.

Ég held að þetta verði alveg smá bras. Ég held að Gunni vinni eftir dómaraákvörðun en muni taka högg hér og þar vera aðeins blóðgaður. Það fer enginn (eða mjög fáir) í gegnum Barberena auðveldlega. Ég segi að Gunni taki þetta eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er svo ógeðslega spenntur fyrir þessum bardaga. Gunni lítur svakalega vel út og virðist hafa átt eitt besta camp í manna minnum. Ég held að þessi andstæðingur henti Gunna ekkert illa og spili ágætlega inn á hans styrkleika. Ég spái því að þetta verði varkár fyrsta lota hjá Gunna og býst við að Bam Bam verði jafnvel að setja smá pressu á hann standandi. Þá reynir á fótavinnuna og býst við að Gunni geti fundið góða vinkla til að countera hann. Ég held að Gunni gefi svo aðeins í í seinni lotu og nái honum með beinni hægri sem droppar honum og klárar þetta svo í gólfinu með rear naked choke.

Halldór Halldórsson: Ég segi hér að Gunni klári þetta snemma, en þetta verður ekki 100% kozy fyrir áhorfendur því Bam Bam mun opna með hnefasamlokum þegar hann er ennþá með fullann tank og okkar maður mun þurfa að forðast það. Síðan semi seint í 1. lotu mun Gunni vera búinn að reikna Bam Bam út, ná honum niður, mount-a hann ná inn nokkrum þungum og Bam Bam snýr sér við í vonlausri stöðu og Gunni fær easy rear naked choke.

Óskar Örn Árnason: Hrikalega gaman að fá Gunna aftur í búrið, virðist fókuseraður og vel þjálfaður. Bam bam er hættulegur fyrst og fremst fyrir þá sem spila hans leik, þ.e. brawl og bang it out bro. Gunnar er of agaður til að falla í þá gryfju, ætti að ná honum niður nokkuð fljótt og býst við finish í fyrstu. Gunnar henging í fyrstu lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Ég er sammála fyrri ræðumönnum um að Bam Bam henti Gunna vel og Gunni er of agaður til að detta í hans leik. Það eru þó hættur þarna og Barberena er góður að koma sér upp. Ég spái að hann nái að þrauka fyrstu og Gunni fái þá tilfinningu fyrir honum og að Gunni klári í annarri.

Gunnar Nelson: Pétur, Guttormur, Halldór, Óskar, Brynjólfur
Bryan Barberena: ..

Titilbardagi í veltivigt: Leon Edwards vs. Kamaru Usman

Pétur Marinó Jónsson: Strax og síðasti bardagi þeirra kláraðist var ég sannfærður um að Usman myndi pottþétt taka þetta ef þeir mættust aftur. Núna, nokkrum mánuðum seinna er ég ekki eins viss. Usman var steinrotaður í ágúst. Það er ekkert grín að ganga í gegnum það sama hvað Usman segir. Ég held að Usman muni skjóta í fellu mjög snemma til að komast aðeins inn í bardagann og reyna að liggja á Edwards. Held að það verði planið hjá Usman, liggja á Edwards og reyna að taka hann niður. Þá þarf Edwards að vera duglegur að nota tímann út á gólfi til að gera meira standandi heldur en síðast og meiða Usman með höggum. Ég held að Edwards komi inn í þennan bardaga með sjálfstraustið í botni og vinni þetta eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held með Leon í þessum bardaga og væri til í að sjá hann vinna en allt í mér segir að Usman sé með réttu tólin til að sigra þetta. Ég held að við sjáum Usman reyna að pressa Leon upp við búrið og grinda hann út. Ég held að þetta ætti að vera frekar auðvelt adjustment fyrir Usman og hann sigri eftir dómaraákvörðun 50–45.

Halldór Halldórsson: Hérna mun Usman gjörsamlega dominate-a alla þætti bardagans, rétt eins og í fyrri bardagananum en í þetta skipti mun Usman ekki gefa neitt færi á sér heldur mun hann grinda út frekar dominant WIN í 5 lotum.

Óskar Örn Árnason: Í uppbyggingunni fyrir þennan bardaga finnst mér allir vera að reyna að tala sig inn á sigur Leon. Ég held að raunveruleikinn sé sá að Usman sé talsvert betri og elding kemur ekki niður tvisvar á sama stað. Ég held að Usman vilji koma með statement og ekki gefa Leon 5 lotur til að finna kraftaverk. Usman KO í þriðju.

Brynjólfur Ingvarsson: Ég er mjög efins með þennan. Ég held að Usman eigi að geta stjórnað þessu en ef skrokkurinn er að gefa sig og Leon er að bæta sig eins og hann hefur gert hingað til er fullur séns fyrir Leon. Ég held að Leon nái að berjast í fyrstu tvær loturnar en þreytist í þriðju og Usman taki yfir í frekar leiðinlegum bardaga. Usman eftir dómaraákvörðun.

Leon Edwards: Pétur
Kamaru Usman: Guttormur, Halldór, Óskar, Brynjólfur

Léttvigt: Justin Gaethje vs. Rafael Fiziev

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður veisla! Fiziev er tæknilegri standandi en Gaethje og verður áhugavert að sjá hvort Gaethje komi lágspörkunum sínum í gang gegn svona tæknilegum sparkboxara á borð við Fiziev. Ég held að þetta verði algjört stríð en á endanum klári Fiziev þetta með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að skrokkhöggin frá Fiziev muni vera x-factor í þessum bardaga. Hvorugir eru hræddir við að taka smá skaða til að lenda höggum og þetta ætti að verða hörku bardagi. Ég held hins vegar að Gaethje sé með veikleika þegar það kemur að því að verjast skrokkhöggunum og þar er Fiziev drullu sterkur. Ég segi að þetta fari alla leið í dómarákvörðun en Fiziev sigrar á stigum eftir algjört stríð.

Halldór Halldórsson: Fiz mun byrja fyrstu lotu mun betur og Gaethje mun vera á bakklöppinni fyrstu 3 mínúturnar. En Fiz mun gleyma sér í gleðinni og klára of mikið af tanknum en hann hafði efni á. GAETHJE mun sjá sér leik á borði og ganga á lagið og koma inn þungum OG STÓRUM höggum undir lok fyrstu lotu og klára Fiz by TKO late in the first.

Óskar Örn Árnason: Fiziev er rosa efnilegur en ég er ekki tilbúinn að afskrifa Gaethje. Ég veit að hann er að nálgast síðasta snúning en held að hann eigi eina magnaða frammistöðu eftir. Justin TKO í annarri lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Þetta verður veislu bardagi, getur ekki orðið leiðinlegur. Ég spái banger standandi, ég held við fáum gamla góða Gaethje, mikið af lágspörkum og mikil pressa og að Fiziev nái ekki að halda honum af sér. Í þriðju lotu held ég að Gaethje þreytist og Fiziev nær að droppa honum en ekki klára og Gaethje vinni dómaraákvörðun í skemmtilegum bardaga.

Rafael Fiziev: Pétur, Guttormur
Justin Gaethje: Halldór, Óskar, Brynjólfur

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular