Skoska bardagakonan Joanne Calderwood var hér á landi nýlega til að aðstoða Sunnu Rannveigu fyrir bardaga hennar í Invicta. Sunna berst sinn annan bardaga í Invicta annað kvöld.
Joanne, eða Jojo eins og hún er oftast kölluð, var hér í tíu daga við æfingar í Mjölni. Þetta er í þriðja sinn sem hún kemur hingað til lands og hefur myndast góður vinskapur á milli Jojo og Sunnu.
„Það er frábært að æfa með henni og hjálpa henni innan sem utan vallar. Við erum nánar, erum með líkan persónuleika, báðar rólegar og elskum að æfa,“ segir Jojo um æfingarnar með Sunnu.
Jojo er í 7. sæti á styrkleikalista UFC í strávigt kvenna og langaði að berjast á UFC bardagakvöldinu í London um síðustu helgi. Hún varð fyrir miklum vonbrigðum þegar það gekk ekki eftir en býst við að vera á UFC bardagakvöldinu í Skotlandi í júlí.
Sunna mætir Mallory Martin á Invicta bardagakvöldinu í Kansas annað kvöld. Jojo er stödd í Kansas núna til að aðstoða Sunnu við undirbúninginn.