0

Jon Jones: Langar ekki að berjast á næstunni

Jon Jones hefur engan áhuga á að berjast á næstunni. Jones er tilbúinn að berjast ekkert í 2-3 ár til að sjá þær breytingar sem hann vill sjá.

Jon Jones hefur verið í opinberum samningaviðræðum við UFC ásamt fleiri bardagamönnum eins og Jorge Masvidal. Báðir vilja þeir stærri hluta af kökunni en bardagamenn UFC fá aðeins 20% af heildartekjum UFC.

Jon Jones vill mæta Francis Ngannou í þungavigt í stað þess að verja léttþungavigtartitil sinn. Þar sem áhættan er meiri vill Jones fá meira borgað en samningurinn kveður um en UFC er ekki á sama máli.

„Ég er ekki að biðja um neitt óraunhæft. Ég veit að við erum í heimsfaraldri og ég er milljónamæringur sem er að biðja um meira sem gæti hljómað eins og græðgi. Ég veit af því en ég veit líka að ég er með rödd til að gera breytingar,“ sagði Jones í hlaðvarpi Steve-O.

Jones segir að þetta snúist ekki eingöngu um sig og sín kjör heldur laun bardagamanna almennt. „Ég veit um svo marga bardagamenn sem búa í Jackson-Wink bardagaklúbbnum því þeir hafa ekki efni á íbúð. Og það eru UFC bardagamenn. Þeir eru jafnvel með aukavinnu eða fá lán frá foreldrum. Það er sorglegt.“

„Ef ég þarf að eiga slæmt samband við Dana White og vera á hliðarlínunni í tvö til þrjú ár til að sýna það sem er að gerast bakvið tjöldin, mun fólk frekar muna eftir því heldur en einhverjum titlum. Ég stend með yngri bardagamönnum.“

„Mig langar ekki að berjast á næstunni. Ég hef engan áhuga á að berjast í UFC þar til ég fæ greitt það sem ég verðskulda. Ég held að UFC átti sig á því að lokum að þeir eru þrjóskir og sjá að þeir eru með einstakan íþróttamann eins og mig. Ég trúi að þeir muni mæta mér á miðri leið.“

Jones hefur nokkrum sinnum komist í fréttirnar fyrir slæma hegðun sína utan búrsins. Jones hefur nokkrum sinnum verið tekinn fyrir ölvunarakstur og verið meðal annars valdur að þriggja bíla slysi þar sem ólétt kona varð fyrir meiðslum.

Í samkomubanninu fyrr á árinu var Jones tekinn fyrir ölvunarakstur enn einu sinni. „Síðasti ölvunaraksturinn gerði margt fyrir mig. Það frelsaði mig á svo marga vegu. Þetta var vandræðalegt fyrir mig. Það hefur aldrei áður verið opinbert myndband af mér ölvuðum. Þetta var niðurlægjandi og að vissu leyti lágpunktur hjá mér en ég er tilbúinn að setja í annan gír.“

Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér að neðan.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.