Thursday, June 13, 2024
spot_img
HomeErlentLeikgreining: Zhang vs. Namajunas

Leikgreining: Zhang vs. Namajunas

Í einum af þremur titilbardögum laugardagsins mætast tvær af bestu bardagakonum heims í einum besta þyngdarflokki UFC. Fyrsti kínverski UFC meistarinn, Weili Zhang, mætir fyrrum meistaranum ‘Thug’ Rose Namajunas.

Weili Zhang er gríðarlega höggþung og hefur yfirhönd þar gegn flestum sínum andstæðingum. Í langri fjarlægð notar hún lágspörk með fremri fæti vel en henni líður best í miðlungs fjarlægð þar sem hún getur skipst á höggum við andstæðinga sína og krafturinn hennar fær að njóta sín.

‘Thug’ Rose Namajunas er með bestu stungu allra kvenna í UFC. Hún hefur góða fótavinnu og líður best í langri fjarlægð þar sem hún notar bein högg og gabbhreyfingar betur en nokkur önnur.

Í langri fjarlægð verður baráttan á milli lágsparks meistarans og stungu áskorandans. Zhang hefur lent í vandræðum þegar hún nær ekki að loka fjarlægð og ætti stunga og fótavinna Namajunas að gera henni erfitt fyrir. ‘Thug’ Rose notar stunguna vel til að setja upp beina hægri. Hún á það þó til að standa kyrr og fylgjast með hægra högginu en í þessum bardaga þarf hún að vera öguð og koma sér hratt og örugglega í burtu og forðast höggskipti.

Namajunas hefur lent í vandræðum með lágspörk og er Zhang líkleg til að nota lágspörk til að hægja á fótavinnu áskorandans. Í síðasta bardaga sínum (gegn Jessica Andrade í fyrrasumar) svaraði Namajunas lágspörkum með því að stíga inn með beinu hægra höggi og letja þannig andstæðing sinn frá því að sparka. En Zhang tekur því líklega fagnandi ef hún getur notað spörkin til að byrja að skiptast á höggum. Því gæti verið sniðugt fyrir Namajunas að nota mikið af framspörkum með fremri fæti, en þar með ver hún fótinn fyrir spörkum og heldur fjarlægð á sama tíma.

Í miðlungs fjarlægð klárar meistarinn samsetningar á vinstri krók eða lágsparki. Zhang notar stundum nokkrar fléttur í röð ef andstæðingurinn bakkar ekki í langa fjarlægð því hún hefur góða höku og er tilbúin að éta högg til að gefa högg. Namajunas berst þó sjálf vel í miðlungs fjarlægð þar sem hún hefur góðar höfuðhreyfingar og hreyfir höfuðið af miðlínunni þegar hún kýlir (sjá mynd 1). Hún passar líka yfirleitt að hanga ekki of lengi í miðlungs fjarlægð heldur myndar hún vinkil og notar hann til að komast aftur í langa fjarlægð (sjá mynd 2).

Mynd 1

a)&b) Namajunas kýlir Jędrzejczyk með hægri og færir höfuðið vinstra megin við miðlínuna sem setur hana í stöðu til að c) beygja sig síðan undir gagnárásina. d) Hún færir höfuðið yfir miðlínuna til að kýla vinstri krók og e) aftur til baka vinstra megin við miðlínuna til að koma sér undan svarinu frá Jędrzejczyk. f) Namajunas setur höfuðið á miðlínuna meðan hún skiptir aftur í rétthenta stöðu en g) færir síðan höfuðið strax hægra megin við miðlínuna til að koma sér undan stungu frá Jędrzejczyk.

Mynd 2

a)&b) Andrade stígur inn með vinstri krók og Namajunas stígur fram og til vinstri með fremri fótinn og c) kemur sér undan hægri hendi Andrade. d) Namajunas kýlir beina hægri af vinklinum sem hún hefur myndað og e) notar síðan vinkilinn til að koma sér aftur í langa fjarlægð.

Ef að Zhang nær ekki að komast í miðlungs fjarlægð og er föst í langri fjarlægð á hún það til að sækja í fellu. Hún sækir mikið í að krækja aftan í fætur andstæðingsins með eigin fótum og annað hvort draga fæturnar undan þeim eða ýta efri líkama andstæðingsins yfir annan fótinn þangað sem hann hefur ekkert jafnvægi (sjá mynd 3).

Mynd 3

a)&b) Zhang krækir innan á fót Jędrzejczyk og reynir að draga fótinn undan henni. c) Jędrzejczyk verst með því að færa sig meira til hliðar við hana og stíga niður með hægri fótinn. d) Zhang breytir þá fellunni og notar krókinn til að lyfta fæti Jędrzejczyk upp á sama tíma og Zhang ýtir höfði Jędrzejczyk yfir standfótinn. e)&f) Jędrzejczyk nær að snúa sér undan og endar í gólfinu.

Zhang sækir þó einnig í „head and arm“ köst en þau geta verið hættuleg að nota þar sem andstæðingurinn getur auðveldlega tekið bakið á þeim sem notar slíkt kast. Rose hefur sýnt að hún kann að svara slíku kasti og því væri óæskilegt fyrir Zhang að sækja í það (sjá mynd 4).

Mynd 4

a)&b) Waterson hefur grip um höfuð og hönd Namajunas og notar það til að c) kasta Namajunas í gólfið. En d) Namajunas nær strax að koma inn krók og notfærir sér stöðuna til að taka bakið á Waterson.

Rose sækir sjálf stundum í fellur og virðist það frekar til að sýna fleiri ógnir og halda andstæðingnum á tánum heldur en að sækja í þær ef hún er í vandræðum. Hún notar oftast skot í „double leg“ þaðan sem hún stígur fyrir aftan fót andstæðingsins og krækir í hnéð.

Bæði meistarinn og áskorandinn hafa sýnt af sér góða kunnáttu í gólfinu. Zhang er líklegri til að nota stærðina til að halda andstæðingnum niðri og lenda olnbogum en Namajunas sækir mikið í uppgjafartök og skiptir þá litlu hvort hún er ofan á eða undir.

Líklegt útspil bardagans

Líklega mun bardaginn að mestu fara fram standandi. Gera má ráð fyrir mikilli baráttu um fjarlægð þar sem Namajunas reynir að halda langri fjarlægð en Zhang reynir að hægja á henni og fá hana til að stoppa og skiptast á höggum við sig. Hér gæti stærð búrsins spilað inn í en barist verður í stóru búri og hefur því áskorandinn meira pláss til að koma sér undan sóknum meistarans.

Eftir því sem líður á bardagann verður áhugavert að sjá hvernig lágspörkin hafa áhrif á hreyfigetu Namajunas. Það gæti gefið Zhang tækifæri til að ná inn þungum höggum en einnig er spennandi að sjá hvernig meistarinn bregst við höfuðhreyfingum og vinklum Namajunas.

Ef að bardaginn fer í jörðina er það líklega Zhang sem sækir fellu en ólíklegt er að hún nái að stjórna Rose í gólfinu þar sem Rose er sífellt að sækja uppgjafartök af bakinu. Meistarinn gæti þó notað fellutilraunir til að komast í „clinch“ þaðan sem hún notar olnboga og hné vel.

Hér fer fram bardagi milli tveggja af bestu og tæknilegustu bardagakonum í heiminum og munu stangast á afar ólíkar leikáætlanir. Því er bardaginn vís til að vera veisla og sérstaklega munu þeir njóta sem hafa gaman af fallegri bardagatækni.

Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular