Mjölnir Open ungmenna fór fram um helgina. 98 keppendur voru skráðir til leiks og sáust margar frábærar glímur.
Mjölnir Open ungmenna er einn stærsti glímuviðburður ársins enda í kringum 100 keppendur á mótinu ár hvert. Keppendur komu frá fimm félögum í ár; 65 frá Mjölni, 12 frá Sleipni í Reykjanesbæ, 9 frá Reykjavík MMA, 3 frá VBC í Kópavogi og 2 frá BJJ Akranesi. 178 glímur áttu sér stað yfir helgina og sáust mörg glæsileg tilþrif.
Á laugardeginum var keppt í 5-11 ára flokkum þar sem einungis var hægt að vinna með stigum en ekki á uppgjafartaki. Krakkarnir sýndu ótrúlega flott tilþrif og var mikil barátta í hverri einustu glímu.
Keppt var eftir „round robin“ fyrirkomulagi þar sem allir kepptu við alla í flokknum og fengu því eins mikla keppnisreynslu og hægt var. Keppnin var sérstaklega jöfn í 8-9 ára flokki þar sem þyngdarflokkarnir voru fjölmennir. Sigurvegararnir í hverjum flokki þurftu því að hafa vel fyrir gullinu og voru vel að sigrunum komnir.
Á sunnudeginum var keppt í unglingaflokkum (12-17 ára) og þar var að hægt að vinna bæði með uppgjafartaki og á stigum. 16-17 ára flokkarnir voru mjög jafnir og var frábær andi í húsinu þegar glímurnar voru sem jafnastar.
Opinn flokkir stúlkna var gríðarlega jafn þar sem þrjár efstu stelpurnar voru allar með þrjá sigra. Rakel Rut endaði sem sigurvegari þar sem hún var með flesta sigra eftir uppgjafartök í flokknum. Rakel vann því tvöfalt um helgina; opinn flokk stúlkna og -60 kg flokk 14-17 ára.
Logi Geirsson og Stefán Fannar mættust í úrslitum í opnum flokki 14-17 ára drengja. Báðir áttu frábæran dag en Logi vann -80 kg flokk og Stefán vann -75 kg. Í úrslitaglímunni reyndist Logi betri og vann á stigum 9-0. Logi vann allar fimm glímurnar sínar á mótinu og þar af þrjár með uppgjafartaki. Stefán vann sex af sjö glímum sínum og þar af fimm með uppgjafartaki.
Mjölnir vann flesta flokka á mótinu eða 17 talsins, Reykjavík MMA vann 5, Sleipnir 4 flokka og VBC vann 1 flokk. Öll úrslit mótsins má finna á Smoothcomp hér.