Luka Ceranja frá Mjölni barðist sinn þriðja atvinnumannabardaga um helgina á FNC 21 í heimlandi sínu í Króatíu gegn samlanda sínum og nafna Luka Milidragović. FNC lýstu bardaganum á samfélagsmiðlum sínum sem þremur lotum af stríði en Luka okkar tapaði á einróma ákvörðun.
Luka póstaði mynd með texta í story á instagram í gær þar sem hann þakkar fylgjendum sínum fyrir stuðninginn. Hann segir að mótherji sinn hafi verðskuldað sigurinn en einnig að hann hafi brotið á sér þumalinn í 1. lotu sem hafði væntanlega töluverð áhrif á bardagann.

Viktor Gunnarsson æfingafélagi Luka hjá Mjölni var gestur Fimmtu Lotunnar í nýjum þætti sem kemur út í vikunni og að hans sögn leit Luka vel út og stóð sig vel í bardaganum.
Luka sagði sjálfur í samtali við MMA Fréttir að honum hafi liðið vel í undirbúningnum að bardaganum, honum fannst hann sterkur og í góðu formi. Þegar bardaginn hófst fannst honum hann yfirvegaður og naut hann sín vel inni í búrinu. Honum fannst mótherjinn þó gera vel í að stjórna fjarlægðinni sem leiddi til þess að hann tók stjórn á bardaganum. Luka fannst hann þó sýna vel hvað í honum býr þó úrslitin hafi ekki verið honum í hag en hann mun þurfa að hvíla í einhvern tíma til að jafna sig á puttabrotinu.
