Sunday, June 23, 2024
spot_img
HomeForsíðaMagnús Ingi: Eftir að ég fann höggið lenda vissi ég að þetta...

Magnús Ingi: Eftir að ég fann höggið lenda vissi ég að þetta væri búið

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Magnús Ingi Ingvarsson sigraði Ricardo Franco með rothöggi um nýliðna helgi. Við spjölluðum við Magnús Inga um bardagann og glæsilega heljarstökkið sem hann tók eftir bardagann.

Bardaginn var ekki langur hjá Magnúsi en hann rotaði Franco með vinstri krók eftir aðeins 39 sekúndur í fyrstu lotu. Magnús byrjaði að pressa á andstæðing sinn snemma og náði inn nokkrum höggum sem Franco reyndi að svara án árangurs. „Eftir háspark sem rétt missti marks og spörk í löppina sem meiddu hann frekar mikið var ég kominn í ágætis flæði. Þá stekk ég inn með vinstri krók sem lenti svona rosalega. Eftir að ég fann höggið lenda vissi ég að þetta væri búið,“ segir Magnús en þetta var annar bardaginn hans í röð sem hann klárar með vinstri króki.

Í apríl á þessu ári sigraði Magnús Ingi hinn írska Ryan Greene eftir rothögg með vinstri króki en er þetta eitthvað sem hann æfir sérstaklega? „Ég hef ekkert verið að æfa vinstri krókinn eitthvað sérstaklega en ég veit að hann er mjög þungur hjá mér þannig að þetta kom mér ekkert mikið á óvart að hann hafi rotast þegar krókurinn lenti.“

Þetta var fjórði áhugamannabardagi Magnúsar og leið honum mjög vel í búrinu. „Mér leið rosalega vel, bæði fyrir bardagann og í bardaganum. Það truflaði mig ekkert að hann [Ricardo Franco, andstæðingur hans] væri svona töluvert reyndari en ég. Ég vissi að ég myndi vinna hann,“ en Franco var með um 16 bardaga að baki fyrir bardagann gegn Magnúsi. Magnús slær ekki slöku við þar sem framundan hjá honum eru fleiri æfingar og keppnir en hann setur stefnuna á atvinnumennskuna á næsta ári.

Eftir rothöggið tók Magnús glæsilegt aftur á bak heljarstökk af búrinu. „Ég hef fengið mikið af spurningum um þetta heljarstökk en ég æfði fimleika í tvö ár þegar ég var aðeins yngri. Þetta er tiltölulega auðvelt stökk en ég mæli ekki með því að fólk reyni þetta nema að hafa dýnu undir sér,“ segir Magnús og hlær.

Að baki bardagamannsins eru margir aðilar og er Magnús þakklátur þeim. „Ég vil fyrst og fremst þakka Mjölni fyrir allra þeirra hjálp, Jóni Viðari, Árna Ísakssyni og Kjartani Páli fyrir að gera þessa ferð algjöra snilld. Svo auðvitað styrktaraðilunum mínum; Hreysti, Gló, Gullöldin, Rakarastofan Basic og Jaco, án þeirra væri þetta svo miklu erfiðara. Síðast en ekki síst vil ég þakka fjölskyldu minni og vinum.“

Við þökkum Magnúsi Inga kærlega fyrir þetta viðtal en þetta verður ekki í síðasta sinn sem við munum heyra í honum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular