spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar: Fyrri hluti

Mánudagshugleiðingar: Fyrri hluti

joanna jedrzejczykUm helgina fóru fram þrjú bardagakvöld í UFC en í þessum hluta Mánudagshugleiðinganna ætlum við að fara yfir fyrstu tvö bardagakvöldin.

Eddie Alvarez, neðanjarðar kóngurinn, er nú léttvigtarmeistari UFC eftir sigur á Rafael dos Anjos. Það tók hann tæpar fjórar mínútur að sigra dos Anjos með tæknilegu rothöggi og leit hann virkilega vel út. Alvarez hefur kannski ekki átt margar stjörnuframmistöður í UFC en á fimmtudaginn sýndi hann af hverju hann er svona vinsæll bardagamaður.

Alvarez hefur í raun sigrað þrjá meistara í röð í síðustu þremur bardögum. Alvarez sigraði Gilbert Melendez í fyrra en Melendez var síðasti léttvigtarmeistari Strikeforce áður en bardagasamtökin voru lögð niður. Þar á eftir sigraði hann Anthony Pettis sem var síðasti léttvigtarmeistari WEC áður en bardagasamtökin voru innleidd í UFC.

Alvarez er með ótrúlega ferilskrá og gat vart leynt tilfinningum sínum er hann fékk beltið. Hann tileinkaði sigurinn liðinu sínu og bar sig afskaplega vel sem meistari. Hann óskaði síðan eftir auðveldum bardaga næst gegn Conor McGregor en ólíklegt er að honum verði að ósk sinni. Bardagi gegn Tony Ferguson (sem berst þó á miðvikudaginn) eða Khabib Nurmagomedov eru eflaust á næsta leyti hjá honum.

Rafael dos Anjos var með engar afsakanir eftir bardagann og bar sig vel eftir tapið. Á einhvern ótrúlegan hátt náði hann að standa enn í lappirnar þrátt fyrir að fá ótal högg í höfuðið. Þegar dómarinn stoppaði bardagann var dos Anjos ennþá standandi. Fyrir bardagann talaði hann um að ofþjálfun væri ekki raunverulegt fyrirbæri í hans huga en kannski fær þetta tap hann til að endurskoða æfingarnar eitthvað. Kannski æfði hann of mikið fyrir þennan bardaga og það gæti hafa haft áhrif á hann. Dos Anjos er þó klárlega enn einn af þeim bestu í léttvigtinni og á skilið að berjast við þá bestu í heiminum. Þó hann hafi tapað beltinu núna mun hann halda áfram að fá sterka andstæðinga.

Joanna Jedrzejczyk átti eina af frammistöðum helgarinnar. Eftir að hafa verið kýld niður strax í 1. lotu og tapað fyrstu tveimur lotunum kom hún sterk til baka. Hún sýndi meistarahjartað með því að sigra síðustu þrjár loturnar með yfirburðum og hefði sennilega getað tekið tvær auka lotur í viðbót. Claudia Gadelha var stærsta ógnin við hana en nú hefur hún sigrað hana tvisvar.

Það er líka gaman að hugsa til þess að Jedrzejczyk er bara búinn að keppa í MMA í fjögur ár. Hún er enn að bæta sig og verður bara betri og betri. Hún er svo svellköld og svöl og skilar alltaf inn ótrúlegri frammistöðu. Hún er með margt sem gefur til kynna að hún geti haldið þessu belti ansi lengi. Næsti andstæðingur Jedrzejczyk verður sennilega sigurvegarinn úr viðureign Rose Namajunas og Karolinu Kowalkiewicz.

Gadelha getur verið stolt af frammistöðu sinni. Hún gerði virkilega vel fyrstu tvær loturnar en þegar hún tók að þreytast átti hún í talsvert meiri erfiðleikum með að ná fellunum. Hún hefur núna tvisvar tapað fyrir meistaranum og þarf að ná í nokkra sigra í röð til að fá annað tækifæri. Það besta fyrir hana (og okkur áhorfendur) væri ef hún myndi berjast sem oftast. Hún getur tekið góða hvíld eftir þetta stríð en það væri gaman að sjá hana berjast oftar enda hefur hún lítið barist undanfarin ár.

Fyrrum Bellator léttvigtarmeistarinn Will Brooks nældi sér í sinn fyrsta sigur í UFC er hann sigraði Ross Pearson eftir dómaraákvörðun. Að margra mati getur Brooks farið sömu leið og Alvarez og var þetta fyrsta skrefið. Ross Pearson er erfiður andstæðingur fyrir alla en Brooks stóðst prófið á stóra sviðinu. Næst á dagskrá fyrir hann er að fá enn sterkari andstæðinga ofarlega á styrkleikalistanum.

Joe Duffy var bara 25 sekúndur að klára Mitch Clarke. Dustin Poirier var kannski aðeins of stórt skref fyrir hann en einhver á topp 15 (jafnvel topp 10) væri verðug prófraun fyrir hann núna. Duffy hefur klárað alla þrjá sigra sína í 1. lotu og væri gaman að sjá hann aftur gegn sterkari samkeppni.

doo ho choi
Doo Ho Choi.

Do Ho Choi var einnig með glæsileg tilþrif í 1. lotu. Hann kláraði Thiago Tavares í 1. lotu en hann hefur nú sigrað alla þrjá bardaga sína í UFC með rothöggi í 1. lotu. Choi, sem er kallaður The Korean Superboy, lítur út eins og 12 ára strákur en ekki rotari í UFC. Líkt og Duffy þarf Choi að mæta sterkari andstæðingum til að getað sýnt hversu góður hann er.

Næsta UFC er strax á miðvikudaginn þegar UFC heimsækir Sioux Falls þar sem þeir Michael McDonald og John Lineker eigast við í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular